Skip to main content

Austfirsk sveitarfélög sameinast um meðhöndlun úrgangs næstu tíu árin

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 07. júl 2025 13:53Uppfært 07. júl 2025 14:01

Öll sveitarfélögin á Austurlandi hafa nú formlega samþykkt sameiginlega svæðisáætlun um meðhöndlun úrgangs næstu tíu árin en það er í fyrsta skiptið sem heilstæð áætlun í slíku nær til allra austfirsku sveitarfélaganna.

Áætlunin gildir frá yfirstandandi ári fram til ársins 2035 og meginmarkmiðið að draga úr myndun úrgangs, auka endurnýtingu og endurvinnslu og minnka úrgang sem þarf að urða. Nutu sveitarfélögin stuðnings Austurbrúar og Sambands sveitarfélaga á Austurlandi við að koma áætlun þessari á koppinn að sögn Söru Elísabetar Svansdóttur hjá Austurbrú.

Langur aðgerðarlisti

„Nú liggur fyrir metnaðarfull og skýr sameiginleg stefna fyrir allan landshlutann og það stórt skref í þessum málum. Þarna er í heild um 20 aðgerðir sem ráðgert er að fara í og eða ljúka á þessum tíma sem um ræðir en forgangsverkefnin eru stofnun Úrgangsráðs Austurlands sem mun samanstanda af fulltrúum frá öllum sveitarfélögunum. Það ráð mun svo leiða hvert verkefni fyrir sig í kjölfarið. Þar á meðal að ráða hringrásarfulltrúa og endurskoða gjaldskrár svo þær endurspegli áherslur í hringrásarhagkerfinu.“

Sjálf á Sara von á að stofnun Úrgangsráðsins verði formfest fljótlega eftir að sumarfríum lýkur í ágúst eða september og ráðið í kjölfarið hafist handa.

Það er Austurbrú sem mun vakta og hafa eftirlit með að aðgerðaráætlunin standist ár frá ári en verkefnin eru ærin. Til dæmis þarf að greina fyrirkomulag sorphirðu í þaula í hverju sveitarfélagi til að fá stóru myndina, rannsaka möguleikana á heimajarðgerð í mismunandi sveitarfélögum og skipuleggja hvernig fara skuli með seyru til framtíðar svo fátt sé nefnt. Þá skal og á tímabilinu meta hvort fýsilegt sé fyrir Austurland að reisa sorporkuver í fjórðungnum fyrir þann úrgang sem ekki fer til endurvinnslu.