Austfirsk sveitarfélög skerða ekki laun á Kvennafrídaginn
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 18. okt 2023 10:38 • Uppfært 18. okt 2023 11:06
Ekkert austfirsku sveitarfélaganna fjögurra áformar að draga laun af þeim konum sem leggja niður störf á þriðjudag til að taka þátt í kvennaverkfalli.
Þetta kemur fram í bókunum sveitarfélaganna og svörum sveitarstjóra við fyrirspurnum Austurfréttar.
Frá fyrsta kvennafrídeginum 24. október árið 1975 hafa konur sex sinnum lagt niður störf þennan dag. Búið er að boða til baráttufunda víða um land. Á Austurlandi verða baráttufundir í íþróttahúsinu í Neskaupstað og Hótel Héraði á Egilsstöðum klukkan 13:00. Að þessu sinni munu konur og kvár leggja niður störf.
Eina austfirska sveitarfélagið sem bókað hefur sérstaklega um daginn er Fjarðabyggð. Bæjarráð beinir því til stjórnenda stofnana að huga að skipulagi starfseminnar á þriðjudag. Halda þurfi uppi almannaþjónustu eins og hægt sé án þess að stefna öryggi eða fólks í hættu. Ekki verður dregið af launum starfsfólks sem taki þátt í kvennaverkfallinu að viðhöfðu samráði við sinn stjórnanda.
Bókun Fjarðabyggðar er í takti við tilmæli stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Austfirsku sveitarfélögin taka almennt þá línu. Ekki er um formlegt verkfall að ræða enda gilda um þau sérstök lög. Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings, segir að miðað við að allt sé unnið í samráði starfsfólks og stjórnenda komi ekki til skerðingar launa.
„Við fylgjum tilmælum Sambandsins og hvetjum konur og kvár til að leggja niður störf þennan dag og sýna samstöðu í verki. Við báðum starfsfólk að tilkynna til næsta yfirmanns hvort það hyggist leggja niður störf þennan dag og mun sveitarfélagið ekki skerða laun þeirra sem kjósa að gera það,“ Sara Elísabet Svansdóttir, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps. Viðbúið sé að leikskólinn og grunnskólinn loki þar sem konur séu í meirihluta starfsfólks. Hjúkrunarheimilinu Sundabúð sé hins vegar ekki hægt að loka.
Engin sérstök ákvörðun hefur verið tekin í Fljótsdal. Sveitarstjóri er þar einn á launaskrá og sá er karlmaður.