Austfirskar björgunarsveitir á leið upp á Vatnajökul eftir neyðarkall
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. feb 2022 11:50 • Uppfært 15. feb 2022 11:53
Björgunarsveitarfólk úr sex austfirskum björgunarsveitum er nú á leið upp á Vatnajökul eftir að neyðarkall frá neyðarsendi barst þaðan í gær. Ferðin sækist hægt enda afar blint á leiðinni.
Í tilkynningu frá Landsbjörgu kemur fram að útkall hafi borist á fjórða tímanum í nótt. Unnið er útfrá staðsetningu neyðarsendis og skráðri ferðaáætlun.
Félagar úr Gerpi Neskaupstað, Brimrúnu Eskifirði, Ársól Reyðarfirði, Einingu Breiðdalsvík, Hérum Fljótsdalshéraði og Jökul á Jökuldal eru í hópi 50 björgunarsveitarfélaga sem stefna nú á jökulinn. Þá kemur svæðisstjórn á Austurlandi að skipulagningu aðgerða.
Sveinn Zoëga, sem sæti á í svæðisstjórninni, segir að austfirsku sveitirnar hafi lagt af stað upp úr klukkan sex í morgun. Jeppar ásamt snjóbíl frá Héraði eru komnir inn fyrir Snæfell. Verið er að gera klára vélsleða frá bæði Héraði og fjörðum.
Aðstæður, bæði uppi á heiðum sem og jöklinum sjálfum, eru erfiðar: snjókoma, hvasst og blint. Ferðin sækist því hægt en helst er að snjóbílarnir nái árangri í vondu veðri þótt hægt fari.
Neyðarkallið kom af sunnanverðum jöklinum og voru björgunarsveitir á Hornafjarðarsvæðinu því ræstar fyrst út. Veður og færð upp á jökulinn er þó sérlega vont og hafa farartæki þaðan þurft að snúa við í morgun. Vonast er til að veðrið gangi heldur niður á jöklinum þegar líður á daginn.
Mynd úr safni.