Austfirskir og norðlenskir bændur sameinast um að panta skeljasand

Bændur á Austurlandi, í samfloti við kollega sína á Norðurlandi, vinna að því að panta skeljasand sem unninn er á Faxaflóa. Sandurinn er ætlaður til að hækka sýrustig í túnum sem aftur bætir nýtingu áburðar.

„Þetta er samstarfsverkefni Búnaðarsambands Eyjafjarðar, Þingeyinga og Búnaðarsambands Austurlands (BsA). Norðlensku félögin áttu hugmyndina og buðu okkur að vera með,“ segir Jón Björgvin Vernharðsson, bóndi á Teigaseli á Jökuldal sem sæti á í stjórn BsA.

Hann útskýrir að ákjósanlegt sýrustig í túnum sé talið 6-6,5 stig á pH kvarðanum. Meðalsýrustig á Austurlandi sé hins vegar 5,5. Þegar sýrustigið lækkar versnar nýting grassins á bæði tilbúnum áburði og lífrænum og þar með uppskeran.

„Sýrustigið skiptir minna máli þegar það er komið yfir 5,5 en ef það er 5-5,5 eins og gerist í mýrartúnum nær sjó þá getur um 20% áburðarins nýst verr. Þegar áburðurinn og annað kostar orðið það sem þau gera þá skipta þessi atriði máli.“

Skeljasandinum er dælt upp af hafsbotni á Faxaflóa. Sandurinn eru brotnar skeljar sem eru nánast hreint kalk. Önnur leið er að kaupa hreint kalk en það er innflutt og kostar mun meira en skeljasandurinn. Rannsóknir hérlendis benda til þess að íslenskur basaltsandur geti hækkað sýrustigið en það tekur lengri tíma en skeljasandurinn.

Jón Björgvin bendir á að stuðningur við dreifingu skeljasandsins um landið sé eitt af þeim atriðum sem hægt sé að efla til að styðja íslenskan landbúnað. „Flutningar á honum voru styrktir af ríkinu áður fyrr en ekki lengur. Að styðja við þetta getur skilað sér fljótt. Þetta styður líka við sjálfbærni, efnið liggur á sjávarbotni, það er tiltölulega einfalt að dæla því upp, skipið er hvort sem er að koma austur og þetta getur dregið úr notkun tilbúins áburðar.“

Töluvert magn þarf hins vegar til að sandurinn skili árangri. „Það þarf um eitt tonn á hektara til að hækka sýrustigið um 0,1.“

Síðasti dagur til að panta sandinn er í dag. Austfirskir bændur hafa þegar skráð sig fyrir um 400 tonnum. Ráðgert er að kalkskipið komi til Reyðarfjarðar um mánaðamótin mars/apríl og þaðan verði sandinum dreift um Austurland.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.