Austfirskir undirskriftalistar: Jarðgöng, sjókvíaeldi og sjúkrahúsið
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. apr 2025 17:05 • Uppfært 09. apr 2025 17:05
Alls hafa ríflega 15.000 manns skrifað nöfn sín undir þrjá undirskriftalista um sér austfirsk málefni, sem hafa verið í gangi á Ísland.is. Þeir snúast um deilumál sem hrista upp í samfélaginu.
Sem stendur er það undirskriftalisti gegn sjókvíaeldinu í Seyðisfirði sem fengið hefur bestar undirtektir. Undir hann hafa skrifað 13.019 manns. Undirskrifalistinn var stofnaður 13. janúar og söfnuðust flestar undirskriftir í byrjun. Fáar hafa bæst við síðustu tvo mánuði en söfnuninni lýkur á morgun.
Elsti undirskriftalistinn í hópnum er til stuðnings Fjarðagöngum, frá Seyðisfirði til Norðfjarðar um Mjóafjörð, en hann fór í loftið 23. nóvember árið 2023. Á þeim tíma hafa safnast 1.742 undirskriftir Textinn er einfaldur, að göngin verði sett í forgang á samgönguáætlun. Undirskriftasöfnunin stendur til 6. júlí í sumar.
Rifja má upp að árið 2019 skrifuðu 1.800 manns undir áskorun um að Fjarðarheiðargöng yrðu næstu jarðgöng á Íslandi og að árið 2012 skrifuðu á fjórða þúsund manns, flestir úr Fjarðabyggð, undir áskorun um Norðfjarðargöng.
Sá undirskriftalisti sem fengið hefur minnstar viðtökur er áskorun um að Umdæmissjúkrahús Austurlands verði fært frá Neskaupstað í Egilsstaði. Rökstuðningurinn er nálægð við flugvöll sem opinn sé allt árið og engin snjóflóðahætta. Undirskriftalistinn lokaði á sunnudag eftir að hafa verið í loftinu í slétt ár. Þann tíma söfnuðust 199 undirskriftir.
Austfirsku undirskriftalistarnir eiga langt í land með að ná þeim vinsælustu í Íslandssögunni. Það var krafa um að 11% af vergri þjóðarframleiðslu yrði varið til heilbrigðismála. Tæplega 87.000 manns skrifuðu undir hana árið 2016.
Í desember árið 2020 skrifuðu 280 Seyðfirðingar undir mótmæli gegn sjókvíaeldinu. Sá listi sem nú er í gangi er orðinn töluvert stærri.
Byggt á grein sem áður birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.