Skip to main content

Austfirskur byggingararfur í öndvegi um helgina

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 26. sep 2025 16:57Uppfært 26. sep 2025 16:57

Austfirskum byggingararfi verður gert hátt undir höfði á tveimur málþingum um helgina en þau verða haldin á Vopnafirði og Skriðuklaustri.


Málþingin tvö eru haldin í tilefni Menningarminjadaga Evrópu og þess að 50 ár eru liðin frá evrópska húsverndarárinu.

Á Vopnafirði talar Pétur H. Ármannsson, arkitekt og sviðsstjóri húsaverndarsviðs hjá Minjastofnun, um sögu húsverndar. Valdimar O. Hermannsson, sveitarstjóri, talar um nýtt verndarsvæði í byggð á Vopnafirði og Jónína Brynjólfsdóttir, safnstjóri Tækniminjasafns Austurlands, segir frá áformum um endurbyggingu Angró á Seyðisfirði.

Málþingið á Skriðuklaustri verður sérstaklega tileinkað Gunnarshúsi. Pétur verður þar líka og fjallar um húsið, arkitekt þess og byggingarsögulegt gildi. Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, segir frá aðdraganda, byggingarframkvæmdum og seinni tíma sögum. Ólöf Sæunn Valgarðsdóttir, staðarhaldari, sýnir myndir af húsinu frá ýmsum tímum, meðal annars byggingu þess.

Málþingið á Vopnafirði verður haldið í félagsheimilinu Miklagarði og hefst klukkan 13:00 á morgun en á Skriðuklaustri byrjar það klukkan 14:00 á sunnudag.

Af öðrum viðburðum helgarinnar má nefna dagskrá sem er hluti af Íþróttaviku Evrópu í Múlaþingi og barnamenningarhátíðinni BRAS.

Mynd: Skriðuklaustur