Austfjarðagöng enn á skilgreiningarstigi
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. mar 2025 12:14 • Uppfært 05. mar 2025 12:16
Lítið hefur gerst í undirbúningi ganga frá Seyðisfirði til Norðfjarðar um Mjóafjörð síðustu misseri þótt þau séu næst í röðinni á eftir Fjarðarheiðargöngum í gildandi samgönguáætlun. Á eftir Fjarðarheiðargöngunum er undirbúningsvinna lengst komin við Fljótagöng.
Þetta kemur fram í svari Vegagerðarinnar við fyrirspurn Austurfréttar um stöðu þeirra jarðganga sem ýmist eru framarlega á gildandi samgönguáætlun eða í drögum að nýrri áætlun.
Samkvæmt gildandi áætlun, 2020-2034, átti að byrja á Fjarðarheiðargöngum, frá Fljótsdalshéraði til Seyðisfjarðar en halda svo strax áfram hringtengingu Austurlands með göngum áfram frá Seyðisfirði til Norðfjarðar um Mjóafjörð, oft nefnd Austfjarðagöng.
Í svari Vegagerðarinnar segir að Austfjarðagöngin séu á skilgreiningarstigi en ekki hafi verið unnið sérstaklega að rannsóknum eða hönnun vegna þeirra. Verkhönnun Fjarðarheiðarganga sjálfra er lokið en unnið að verkhönnun vegar og brúar yfir Eyvindará.
Ósamþykktar áætlanir
Sumarið 2023 kynnti svo þáverandi samgönguráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson, drög að nýrri samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038 og um leið jarðgangáætlun. Þar eru Austfjarðagöngin færð niður í sjöunda sætið. Samkvæmt tímalínu jarðgangaáætlanarinnar átti undirbúningur Austfjarðaganganna að vera 2035-2038 og framkvæmdatíminn 2040-2043. Ljóst er að áætlunin er farin úr skorðum því framkvæmdir við Fjarðarheiðargöng áttu að hefjast í ár en ekkert bólar á þeim.
Áætlanirnar voru aldrei samþykktar af Alþingi en það afgreiddi með fjárlögum í haust framlög til undirbúnings jarðganga á fjórum stöðum á landinu. Þau eru Fljótagöng eða Siglufjarðarskarðsgöng, Hvalfjarðargöng, ný göng milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur og Súðavíkur og Ísafjarðar.
Staða undirbúnings annarra jarðganga
Af þessum eru Fljótagöngin lengst komin. Byrjað er að hanna frumdrög að þeim, borrannsóknir eru hafnar og undirbúningur við mat á umhverfisáhrifum. Samkvæmt tímalínu jarðgangáætlunarinnar var reiknað með fjögurra ára undirbúningstíma fyrir framkvæmdir frá árinu 2028.
Hin göngin teljast öll á skilgreiningarstigi. Verið er að greina valkosti til að breikka Hvalfjarðargöng. Lítil fjárveiting fékkst í ný göng um Ólafsgjarðarmúla en nánari skoðun valkosta verður gerð í ár. Fyrir Súðavíkurgöngin fékkst fjárveiting til að hefja undirbúning. Miðað við tímalínu jarðgangáætlananna eru þessi göng á áætlun, utan þess að Súðavíkurgöngunum hefur verið flýtt verulega því undirbúningur þeirra átti ekki að hefjast fyrr en 2032. Algengt er í áætlununni að fjögur ár séu ætluð til undirbúnings, aldrei minna.
Ný ríkisstjórn hefur heitið því að rjúfa kyrrstöðu í jarðgangaframkvæmdum. Endurskoðuð samgönguáætlun hennar verður þó ekki lögð fyrir Alþingi fyrr en í haust.