Skip to main content

Austurfrétt tíu ára

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. feb 2022 11:56Uppfært 18. feb 2022 12:34

Fréttavefurinn Austurfrétt fagnar tíu ára afmæli sínu um þessar mundir. Saga vefsins er hins vegar ögn lengri og flóknari.


Samhliða stofnun vikublaðsins Austurgluggans í byrjun árs 2002 var komið á fréttavef undir nafni blaðsins. Hann fór þokkalega af stað en varð í raun aldrei stöðugur. Árið 2007 kom þó hópur að því með blaðinu að endurvekja vefinn og var hann smíðaður upp á nýtt.

Árið 2010 var vefurinn aðskilinn vikublaðinu og fengið nafnið Agl.is til að aðskilja hann blaðinu. Í kjölfarið var byrjað að vinna að því að aðskilja hann enn frekar, sem varð til þess að 14. febrúar 2012 var Austurfrétt ehf. stofnuð. Það var þar með stofndagur vefsins sem þýðir að Austurfrétt varð tíu ára á mánudag.

Vikublaðið og fréttavefurinn voru þó ekki aðskilin lengi. Árið 2013 hófst samstarf á ný undir sameiginlegri ritstjórn samkvæmt samningi. Frá haustinu árinu 2015 hefur Útgáfufélag Austurlands haldið utan um rekstur beggja miðla. Í lok þess árs var sett í loftið ný útgáfa vefsins, sú sem notast er við í dag.

Yfir 1.000 manns sækja vefinn á hverjum degi og þar með um 8.000 í hverri viku. Jafngildir það því að um þrír af hverju fjórum íbúum Austurlands heimsæki vefinn á hverjum degi. Ljóst er þó að vinsældirnar ná langt út fyrir fjórðunginn því brottfluttir og annað áhugafólk um fjórðunginn fylgist grannt með vefnum.

Nýjar fréttir birtast á vefnum alla virka daga og frídaga eftir því sem stórtíðindi verða.