Austurland á bæði hita- og kuldamet nóvembermánaðar
Líklega kvarta fáir yfir tæplega fjórtán stiga hita þegar vel er liðið á næstsíðasta mánuð ársins en það er hærra hitastig en meðalsumarhiti á Íslandi sem er 13,5 stig. Það var raunin á Seyðisfirði þann 21. nóvember þegar hitamælar á staðnum sýndu 13,9 stiga hita samkvæmt úttekt Veðurstofu Íslands.
Fræðingar Veðurstofunnar hafa rýnt í og birt helstu hita- og veðurfarstölur liðins mánaðar á landsvísu og samkvæmt þeim mældist bæði hæsta og lægsta hitastigið á Austurlandi í þeim mánuði. Fyrrnefnda metið á Seyðisfirði þann 21. nóvember eins og hér að ofan er frá greint en kuldametið mældist á Möðrudal tæpum tveimur vikum fyrr, þann 12. þess mánaðar, en þá sýndi mælirinn á staðnum mínus sautján stig þegar kaldast var.
Heilt yfir hitafarslega var nýliðinn nóvember þokkalega á pari við það sem verið hefur undanfarin ár. Á Egilsstöðum var meðalhitastigið 0,5 stig sem er 0,1 stigi kaldara en venjan hefur verið frá árinu 1991. Öllu hærri meðalhiti mældist á veðurstöðvum á Dalatanga og Teigshorni, 3,8 og 3,5 stig, en það einnig svipað og verið hefur frá mælingum síðustu 32 árin.
Austfirðingar voru ekki með öllu lausir við ólátaveður þennan mánuðinn. Mikið ísingaveður gerði dagana 6. til 7. nóvember um mestallan fjórðunginn sem olli meðal annars töluverðum rafmagnstruflunum á stóru svæði. Það voru þó einu dagarnir sem eitthvað hvað að í veðrinu enda austlægar áttir ríkjandi í landinu öllu lunga mánaðarins og með þeim hægviðri víðast hvar.