Skip to main content

Austurland trúlega heldur á eftir í faraldrinum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. mar 2022 09:11Uppfært 16. mar 2022 10:02

Ríflega 250 Covid-19 sýni greindust jákvæð á Austurlandi á mánudag. Líklegt þykir að toppi faraldursins verði náð heldur síðar á Austurlandi heldur en á landsvísu.


Þetta kemur fram í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands.

Á mánudag var tekið 331 hraðpróf, þar af voru 256 jákvæð eða 77%. Hlutfallið var lægra, 67% fyrir viku en þá voru fleiri sýni tekin. Til viðbótar við þetta taka margir Covid-próf í heimahúsum en ekki er vitað hve mörg smit greinast þar.

Í tilkynningunni kemur fram að svo virðist sem toppnum sé að verða náð í nýgengi smita á landsvísu en sennilega sé Austurland aðeins á eftir.

Þá er greint frá því að áfram sé afar viðkvæmt ástand í heilbrigðiskerfi landsins og þar sé Heilbrigðisstofnun Austurlands engin undantekning. Dag hvern sé fjöldi starfsfólks frá vinnu vegna veikinda. Ástand á sumum hjúkrunarheimilum hafi verið mjög erfitt, á sjúkradeildinni í Neskaupstað og sumum heilsugæslum.

Þess vegna hvetur aðgerðastjórnin íbúa til að viðhafa persónulegar sóttvarnir sérstaka áherslu á fjarlægð, grímunotkun, handþvott og sprittnotkun. Á það til að mynda við í verslunum og þar sem margir koma saman, sumir mögulega með undirliggjandi sjúkdóma og því viðkvæmari fyrir smiti en ella. Minnt er á að taka Covid-próf eða fara í sýnatöku verði einkenna vart.

„Þetta er vonandi að hafast hjá okkur og mun gera það með samstilltu átaki okkar allra, þar sem hver gætir að sér og að náunga sínum í leiðinni.“