Skip to main content

Ávarp frá íbúa á Gaza á mótmælafundi á Egilsstöðum: Þarf daglega að berjast fyrir lífi barnanna minna

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. sep 2025 11:58Uppfært 12. sep 2025 07:19

Ávarp móður sem misst hefur nær allt sitt á Gazasvæðinu vegna hernaðar Ísraelsríkis var flutt á mótmælafundi í Tjarnargarðinum á Egilsstöðum á laugardag. Sóknarprestur sagðist finna það í samfélaginu hvernig fréttir af hörmungunum snertu við fólki.


Fundurinn var haldinn eins og fleiri hérlendis á sama tíma undir yfirskriftinni „Þjóð gegn þjóðarmorði.“ Að fundunum stóð fjöldi félagasamtaka, meðal annars AFL starfsgreinafélag og Soroptimistaklúbbur Austurlands.

„Að vera móðir á Gaza þýðir að ég verð að berjast daglega fyrir lífi barna minna. Ég verð að fela óttann, svo þau finni ekki fyrir honum. Ég þarf að reyna að sannfæra þau um að morgundagurinn verði betri,“ skrifaði Haneen Younis, fjögurra barna móðir, fædd árið 1993 sem býr á svæðinu en Unnur Borgþórsdóttir las upp ávarp hennar á fundinum. Þórunn Ólafsdóttir las einnig upp stutt ávarp frá Palestínumanni.

Leita nauðsynja á hverjum degi


Haneen starfaði við kennslu og rak lítið bakarí áður en stríðið braust út. Maðurinn hennar var að byggja stórt kjúklingabú sem búið er að sprengja, líkt og heimili hennar. Fjölskyldan hefur búið í tjaldi síðan í maí árið 2024. „Heimili okkar voru lögð í rúst og við verðum að leita skjóls undir berum himni. Eða í tjöldum sem eru óbærilega heit á sumrin og óbærilega köld á veturna. Láta beinin skjálfa af kulda.

Við þurfum að reyna að komast af með minnstu eignir og við svo frumstæð lífsskilyrði að varla nokkur manneskja getur hafst þannig við og þolað það. Á hverjum degi leitum við að vatni, brauði, lyfjum, öryggi og lífi. En þrátt fyrir allt þetta, el ég börnin mín enn upp í kærleika og trú á að einhverjum þyki vænt um þau, jafnvel úr fjarlægð,“ skrifaði hún.

Hún færði Íslendingum þakkir fyrir stuðninginn, einkum samtökunum Vonarbrú, sem stofnuð voru um páskana til að styðja við íbúa í Palestínu. Haneen sagði slíkan stuðning veita íbúum Gaza von til að halda áfram. „Það sem þið byggið er von, líf og reisn.“

Kallað eftir réttlátum friði


Þjóðkirkjan var meðal þeirra samtaka sem stóðu að mótmælafundunum. Þorgeir Arason, sóknarprestur á Egilsstöðum, var meðal ræðumanna og notaði tækifærið til að minnast á sameiginlegan grunn kristinna, gyðinga og múslima. Í öllum trúarbrögðunum séu Davíðssálmarnir í hávegum hafðir. Þorgeir las um vers þar sem kallað var eftir „réttlátum friði, “ það er frið sem kæmi ekki til af ógnarstjórn eða ótta. Hann sagði að ekki mætti gleyma voninni á tímum hernaðarbrölts.

Þorgeir kvaðst oft hafa verið „ráðvilltur, ringlaður og jafnvel dofinn,“ gagnvart fréttum undanfarinna ára af ástandinu á Gaza. Hann sagði sögu af hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum þar sem eru reglulegar helgistundir. Þorgeir sagðist reyna að viðhafa jákvætt og uppbyggilegt tal í stundunum en í sumar hefði íbúi um nírætt kvatt sér hljóðs og spurt ekki hvort ekki væri ástæða til að biðja fyrir fólkinu á Gaza sem byggi við mikla grimmd. Fleiri í stundinni hefðu verið sama sinnis.

Styrkur í samstöðunni


Halla Gunnarsdóttir, formaður VR, var síðasti ræðumaður dagsins en verkalýðshreyfingin í landinu stóð nær öll saman í mótmælunum. Hún sagði að undanfarin tvö ár hefði um hálf milljón Palestínumanna misst atvinnu sína og fjöldi verið rændur launum sínum. Alþjóðlega verkalýðshreyfingin hefur kært ísraelsk fyrirtæki fyrir að stela launum um 200.000 Palestínumanna.

Hún kallaði eftir aðgerðum íslenskra stjórnvalda en fyrst og fremst þrýstingi á samræmdar aðgerðir Vesturlanda sem helst hefðu mátt til að koma böndum á það sem er að gerast. Hún rifjaði líka upp söguna um að eftir seinni heimsstyrjöldina hefðu ríki heims reynt að bindast sáttmála um að láta slíkt ekki gerast aftur. „Helförin var fordæmd að mestu eftir að hún átti sér stað, ekki á meðan.“

Hún sagði að þótt svo virtist að Egilsstaðir væru fjarri heimsins vígaslóð og mótmæli þar hefðu lítil áhrif væri rétt að muna samtakamáttinn. „Við sækjum styrk í samstöðuna og með veru okkar hér segjum við „okkur er ekki sama“. Við krefjumst aðgerða.“

Mynd: Esther Ösp Gunnarsdóttir