Skip to main content

B og Á mynda meirihluta á Fljótsdalshéraði: Eiríkur Björn hættir sem bæjarstjóri

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 04. jún 2010 15:16Uppfært 08. jan 2016 19:21

ab_meirihluti_gj_sbs.jpg Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs, ætlar ekki að sækja um stöðuna þegar hún verður auglýst í sumar. Sú gjörð er hluti af samkomulagi nýs meirihluta Framsóknarflokks og Á-lista á Fljótsdalshéraði sem kynntur var í dag.

 

Stefán Bogi Sveinsson, oddviti framsóknarmanna og nýr forseti bæjarstjórnar, skýrði frá samtali oddvita nýja meirihlutans við bæjarstjórann. Hann sagði að staðan yrði auglýst eins fljótt og kostur væri. Við tæki ráðningarferli sem ýmsar ráðningarskrifstofur hefðu sýnt áhuga á að aðstoða við.

"Ef við teljum okkur þurfa á hjálp að halda þá mun ég hafa samband við einhvern þeirra góðu manna. Ég er ekki sannfærður um að við þurfum hana," sagði Stefán.

Gunnar Jónsson, oddviti Á-lista og nýr formaður bæjarráðs, tók í sama streng. "Það gildir almennt að þótt aðstoð sé ágæt er það fyrst og síðast kjörinna fulltrúa að taka slíkar ákvarðarnir."

Eiríkur Björn vinnur með nýja meirihlutanum þar til nýr bæjarstjóri hefur verið fundinn.