Skip to main content

Bæði austfirsku skíðasvæðin opna strax á nýju ári

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 05. des 2023 13:52Uppfært 05. des 2023 14:04

Undirbúningur fyrir komandi skíðavertíð er í fullum gangi bæði í Stafdal og Oddsskarði og bjartsýni ríkir því nægur snjór finnst í brekkunum og það töluvert fyrr en verið hefur undanfarin ár.

Hvorug svæðin hafa enn opnað formlega þó æfingar séu hafnar að hluta til í Oddskarði en samkvæmt upplýsingum Austurfréttar mun almenningur líkast til ekki komast í brekkurnar fyrr en í byrjun nýs árs. Það helgast fyrst og fremst af því að fjárhagsáætlanir Múlaþings og Fjarðabyggðar gera ekki ráð fyrir opnun fyrir þann tíma enda kostnaður því eðlilega samfara.

Að sögn Sigurjóns Egilssonar, forstöðumanns skíðasvæðisins í Oddsskarði, eru menn lukkulegir með stöðuna þar og þegar tilteknar hópar farnir að æfa. Til samanburðar var skíðasvæðið þar ekki opnað vegna snjóleysis fyrr en seint í janúarmánuði síðasta veturinn.

„Hér er kominn ágætur snjór og það töluvert fyrr en hin síðari ár. Það er búið að undirbúa mest og við núna að bíða nýs lyftuhúss í stað þess sem fór í snjóflóðunum síðasta vetur. Mér skilst að það fari á pall austur í næstu viku og ætti að vera komið upp fyrir áramótin. Við gerum ráð fyrir á þessari stundu að opna formlega svona fljótlega í byrjun nýs árs.“

Nægur snjór finnst sömuleiðis í Stafdal og þar vinna í fullum gangi við að gera klárt en rúmt ár er síðan þangað var ráðinn fastur starfsmaður að sjá um svæðið af hálfu Múlaþings. Þar opnar líka á nýju ári og töluverður fjöldi námskeiða verða þar í boði í vetur. Þar með taldar nýjungar eins og brettanámskeið og Freeride-námskeið en stutt er síðan ákveðið var að keppt yrði fyrsta sinni í Freeride á Ólympíuleiknum 2030. Freeride er notað yfir keppnir utan hefðbundinna skíðabrauta.

Bæði skíðasvæðin munu bjóða upp á vetrarkort á góðum kjörum og þau tilboð auglýst á samfélagsmiðlum.

Svart og hvítt er munurinn á snjómagninu í Oddsskarði nú og á sama tíma fyrir ári. Skjáskot Fjarðabyggð