Skip to main content

Bænastund og mótmæli vegna stríðsins í Úkraínu á Egilsstöðum

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 25. feb 2022 15:38Uppfært 25. feb 2022 16:05

„Ég er hálf rússnesk og hálf úkraínsk sjálf en það er ekkert sem afsakar þessa innrás inn í landið og fjölskyldan mín, sem býr í grennd við Kænugarð, leitar nú leiða til að koma systur minni með lítið barn, út úr landinu sem fyrst,“ segir Alona Perepelytsia, danskennari á Egilsstöðum.

Alona hefur boðað til bæði bænastundar og mótmæla vegna innrásar Rússa inn í Úkraínu við Egilsstaðakirkju klukkan 17 í dag.

Þar er hugmyndin að biðja fyrir Úkraínumönnum, sem eiga við ofurefli að etja með rússneskt herlið á hraðleið inn í landið úr mörgum áttum, en sömuleiðis til að mótmæla þessum stríðsrekstri Rússa inn í sjálfstætt ríki.

Aðeins fjórir sólarhringar eru síðan Vladimir Pútin, forseti Rússlands, viðurkenndi tvö stór svæði í austurhluta Úkraínu, Donetsk og Luhansk, sem sjálfstæð svæði og sendi þangað herlið til að gæta „friðar“ eins og það var orðað. Síðan þá hefur hann gengið lengra og lýst yfir viðurkenningu Rússa á svæðunum tveimur sem sérstök lýðveldi út af fyrir sig.

Rússar hófu svo innrás úr mörgum áttum fyrir 48 stundum síðan og þá meðal annars inn á svæði sem aðskilnaðarsinnar, sem fylgja Rússum að málum, hafa ekkert gert sig gildandi. Þar á meðal höfuðborgina Kænugarð en þar er nú barist á götuhornum ef marka má fréttir RÚV frá staðnum.

Vel yfir hundrað manns hafa líkað við áskorun Alona á fésbókarvef íbúa Fljótsdalshéraðs en hún hefur lengi búið á Egilsstöðum.

„Ég vona að fólk taki vel í þetta. Ég er í miklu sambandi við fjölskyldu mína úti og veit að allir þar eru hræddir og vilja ekki upplifa neitt stríð. Að sama skapi treystir fólk á her Úkraínu til að stöðva þessa innrás en það er mikil hræðsla og margir vilja komast burt.“

Aðspurð um hvort Alona sé að reyna að koma systur sinni og barni hennar hingað til lands segir hún það kannski mögulegt en fjölskyldan á líka ættingja á Ítalíu og þangað sé verið að reyna að koma systurinni og barni hennar núna.