Bændur bera sig bærilega á Efra-Jökuldal

Veðurofsinn í gær og nótt með tilheyrandi kulda hefur ekki haft alvarlegar afleiðingar á Efra-Jökuldal samkvæmt bónda á svæðinu. Einhver snjór hafi vissulega fallið og hitastigið sé lægra en spáin gerði ráð fyrir en menn séu öllu vanir.

Svo segir Aðalsteinn Sigurðarson, bóndi að Vaðbrekku, í samtali við Austurfrétt en hann segir á þessari stundu ekki standa til að hýsa fé vegna veðursins en kalt og hvasst á að vera áfram alveg fram á föstudaginn kemur.

„Það sleppur nú að mestu því lömbin hér öll orðin meira en tveggja vikna gömul en ég ætla vissulega að hafa þau nærri að sinni og sjá hverju fram vindur næstu dagana. Við hér reyndar sleppum vel við vind í þessari átt þannig að það er jákvætt en það er lítils háttar snjór hér á stöðum.“

Aðalsteinn segir auðvitað leiðindi að fá svona veðurskell í júníbyrjun en það er þó ekki langt síðan að svipað veður gekk yfir í þessum sama mánuði.

„Við fengum svona veður líka í júní fyrir þremur árum síðan svo það er ekki beint einstakt af fá svona veður en vissulega stóð það ekki eins lengi yfir og spár segja að verði raunin nú.“

Aðspurður um hvort ferðafólk hafi lent í vandræðum á leiðinni til og frá Stuðlagili í gærkvöldi eða í morgun segist Aðalsteinn engar fréttir hafa haft af slíku en umferðin sé reyndar lítil.

Mynd frá Aðalsteini sýnir stöðuna við Vaðbrekku fyrr í morgun. Samkvæmt veðurspá hvessir meira fljótlega eftir hádegið í dag. Áfram mun snjóa á hálendinu en fara að rigna við flesta firði.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.