Bakarameistarinn sjálfur tekur við Sesam brauðhúsi
Stofnendur og rekstraraðilar Sesam brauðhúss á Reyðarfirði hafa selt reksturinn og það ekki í verri hendur en á sjálfum bakarameistara hússins sem tekur nú við öllu keflinu ásamt þremur samstarfsmönnum.
Kaupin á þessu vinsæla handverksbakaríi gengu í gegn fyrir rúmri viku síðan en allt frá upphafi árið 2011 hefur Valur Þórsson, bakarameistari, staðið vaktina bakatil og óhætt að segja að hróður staðarins hefur náð víða á þeim tíma. Það finnst sannarlega sem gerir sér reglulega sérstaka ferð á Reyðarfjörð í því skyni einu að kaupa rómuð súrdeigsbrauðin eða magnaðar terturnar og kökurnar sem þar fást.
Auk Vals sjálfs eru kaupendurnir Elísabet Sveinsdóttir, Þórey Sveinsdóttir og Gregorz Zielke en saman reka þau fyrirtækið Baker Family ehf. Seljandinn er Lostæti Austurlyst þar sem feðgarnir Valmundur Pétur Árnason og Árni Már Valmundarson standa í stafni en það fyrirtæki hefur meðal annars sinnt allri veitingaþjónustu í álveri Alcoa Fjarðaáls.
Sjálfur vill Árni Már nota tækifærið til að þakka þeim þúsundum viðskiptavina sem átt hafa viðskipti við Sesam á þeim tólf árum sem liðin eru síðan opnað var fyrst. Hann segir aldrei hafa komið til greina að selja nema pottþéttum aðilum sem ætla sér að halda starfseminni áfram á sínum stað.
Þessu tengt hefur Austurfrétt heimildir fyrir að einn aðili sé að skoða að bjóða daglega brauð frá Sesam á Héraði en þar varla fengist ný brauð síðan Fellabakarí lagði upp laupana í byrjun ársins.
Árni Már og Valmundur til vinstri en kaupendurnir fjórir hægra megin á myndinni. Bakarameistarinn fyrir miðju. Mynd aðsend