Skip to main content

Íbúakosning um olíubirgðastöð?

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. maí 2011 23:47Uppfært 08. jan 2016 19:22

oliubirgdastod_eyri.jpgMinnihlutinn í bæjarstjórn Fjarðabyggðar vill kjósa um byggingu fyrirhugaðrar olíubirgðastöðvar í Reyðarfirði. Fulltrúar meirihlutans segja það ótímabært. Þeir telja mikil atvinnutækifæri fólgna í stöðinni.

 

Austurglugginn greinir frá þessu. Mannvit hefur verið að undirbúa að koma reisa 450.000 rúmmetra olíubirgðastöð við Eyri í Reyðarfirði.

Á fundi bæjarstjórnar fyrir helgi lögðu fulltrúar Fjarðalistans fram bókun um að þeir telji nauðsynlegt að íbúar í Fjarðabyggð fái að kjósa um málið „á einhverjum stigum.“

„Ýmsum veigamiklum spurningum er ósvarað sem ber að fara gaumgæfilega yfir, sérstaklega sem snerta umhverfismál,“ segir Elvar Jónsson, oddviti listans í samtali við Austurgluggann. „Þetta er einfaldlega þannig mál og það yrði í fullu samræmi við þá umræðu og yfirlýsingar sem fulltrúar stjórnmálaflokkanna gáfu í síðustu sveitarstjórnakosningum um að virkja íbúalýðræði.“

Í bókun meirihluta Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks segir „ákaflega fljótfærnislegt“ að ræða nú um íbúakosningu. Mikilvægt sé að halda íbúum upplýstum um framvindu málsins og niðurstöður umhverfismat verði því haldið áfram. Málið sé enn á umræðustigi og mikil vinna eftir áður en ákvörðun liggur fyrir um það.

Sævar Guðjónsson, ferðaþjónustubóndi á Mjóeyri og bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á ekki von á að stöðin hafi áhrif á ferðaþjónustu. Hann var meðal þeirra bæjarfulltrúa sem skrifuðu undir meirihlutabókunina.

Jens Garðar Helgason, formaður bæjarráðs, segist jákvæður í garð verkefnisins sem styrkt geti atvinnulífsið í Fjarðabyggð.

„Ég er persónulega mjög jákvæður gagnvart þessu verkefni. Ég tel að það muni styrkja stöðu Fjarðabyggðar gríðarlega þegar kemur að olíuleit á Drekasvæðinu og við Grænland. Fjöldi starfsmanna verður milli 5 – 10, en við bætast verktakar ýmiss konar í viðhaldi og fleiru. Helstu tekjur Fjarðabyggðar verða af vöru – og hafnargjöldum. Í mínum huga er það eitt mikilvægasta hlutverk bæjarstjórnarinnar að efla og styrkja atvinnu á svæðinu og þar af leiðandi auka tekjur sveitarfélagsins.“

Nánar er fjallað um málið í nýjasta tölublaði Austurgluggans í vikunni.