Bandaríkjamenn fjölmennastir ferðamanna á Austurlandi

Bandaríkjamenn eru sú þjóð sem er fjölmennust á meðal ferðafólks á Austurlandi. Þjóðverjar koma þar næstir á eftir. Almennt virðist vera ánægja á meðal þeirra sem heimsækja svæðið.

Þetta kemur fram í ítarlegri tölfræðisamantekt frá Ferðamálastofu, sem kannar ánægju ferðafólks með Íslandsdvölina við brottför frá Keflavíkurflugvelli. Gögnum er safnað allt árið þannig að fyrir liggja 12.000 svör sem síðan eru umreiknuð fyrir heildarferðamannafjöldann.

Samkvæmt útreikningunum komu rúmlega 2,14 milljónir ferðamanna til Íslands á síðasta ári. Þar af heimsóttu 28,5% þeirra, eða rúm 600.000, Austurland. Austurland fær til sín um 80.000 færri ferðamenn en Norðurland en um þrefalt fleiri en Vestfirðir. Ferðafólkið dvelur að meðaltali í 7 nætur á landinu, þar af 1,4 nótt á Austurlandi.

Fólk frá meginlandi Evrópu líklegast til að fara austur


Bandaríkjamenn eru fjölmennastir bæði á Austurlandi og á Íslandi öllu. Það segir hins vegar hluta aðeins sögunnar þegar horft er til þess hvaða þjóðerni séu líklegust til að heimsækja Austurland. Áætlað er að um 20% þeirra Bandaríkjamanna sem hingað koma fari til Austurlands. Bretar eru næst fjölmennastir á landinu en hanga mest í kringum höfuðborgarsvæðið, því aðeins 10% þeirra koma austur. Hlutfallið er svipað hjá Norðurlandaþjóðunum, líklegra er að Norðmenn eða Svíar heimsæki Austurland heldur en Danir.

Á móti eru Þjóðverjar næst fjölmennastir hér. Þjóðir á borð við Frakka, Ítali og Spánverja koma þar á eftir, en á milli 40-50% ferðamanna frá þessum ríkjum leggja leið sína austur.

Sótt í náttúruna


Ýmislegt fleira um hegðun og skoðanir ferðafólks má lesa út úr könnuninni. Þannig virðast flestir gestirnir hafa fengið nóg af höfuðborgarsvæðinu og nærumhverfi eftir fyrstu ferð, um þriðjungur vill heimsækja það aftur, en 62% vilja fara aftur á Norðurland, 57% á Vestfirði, 48% á Suðurland og 47% á Austurland. Spurt var út í þetta á meðal þeirra 75% sem sýndu töluverðan áhuga á að koma aftur til landsins. Austurland fékk hæstu einkunn landshluta þegar fólk var spurt hvort það mælti með heimsókn þangað.

Líkt og annars staðar er það náttúran sem laðar fólk til Austurlands, þótt hún dragi til sín hærra hlutfall en annars staðar. Umfjöllun í fjölmiðlum hefur líka reynst Austurlandi vel þegar spurt er hvað hafi dregið fólk til landsins. Á móti kemur Austurland verr út þegar spurt er hvort verið sé að heimsækja ættingja eða vini, sækja í menningu eða hvort gott ferðatilboð hafi boðist.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.