Bannað að halda nautgripi í fimm ár eftir stórfellda vanrækslu
Héraðsdómur Austurlands hefur dæmt einstakling í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi og bannað honum að sýsla með nautgripi í fimm ár eftir að sjö dauðir gripir fundust í útihúsum á jörð hans haustið 2022.Málið kom fyrst til kasta lögreglunnar á Höfn þann 18. nóvember árið 2022 eftir ábendingar til dýralæknis. Samdægurs fóru lögregla og dýralæknirinn á bæinn og hittu manninn.
Hann vísaði þeim strax í útihúsin þar sem sjö gripir: tvö naut, tvær kýr, kvía og tveir kálfar lágu dauð í tveimur stíum. Í skýrslu dýralæknis segir að gripirnir hafi verið „skinhoraðir.“ Matvælastofnun tilkynnti manninum strax í kjölfarið að hann yrði til bráðabirgða sviptur allri heimild til að sjá um dýr og kærði hann formlega til lögreglu.
Maðurinn var ákærður fyrir að hafa vanrækt að fóðra og brynna dýrunum auk þess að tryggja ekki að þau fengju læknismeðferð með þeim afleiðingum að þau drápust og lágu dauð og afskiptalaus í allnokkurn tíma.
Viðurkenndi vanfóðrun
Maðurinn gekkst við því að hafa ekki sinnt fóðrum þeirra haustið 2021. Heyið hafi verið lélegt og gripirnir síðan veikst. Vegna hans eigin aðstæðna hafi hann ekki haft rænu á að kalla eftir aðstoð. Dýrin hafi því drepist eitt af öðru í nóvember 2021. Hann sagði þó nægt vatn hafa verið til staðar.
Í fyrravor óskaði lögreglustjórinn á Suðurlandi, sem embættið á Höfn heyrir undir, eftir að lögreglustjórinn á Austurlandi færi með málið. Ástæða þess kemur ekki fram í dóminum.
Þar greinir hins vegar frá því að ákærða hafi verið gert fyrirkall í byrjun desember í fyrra en ekki verið hægt að birta honum það vegna dvalar erlendis. Birtingin hafi loks tekist nú í byrjun febrúar. Málið var þingfest þann 7. mars síðastliðinn. Maðurinn mætti ekki né boðaði lögmæt forföll og var málið dómtekið í kjölfarið.
Stórfellt brot
Niðurstaða dómsins er að ósannað sé að maðurinn hafi ekki tryggt dýrunum nægilegt vatn en að öðru leyti sé hann sekur um brot á lögum um velferð dýra sem skylda eigendur um að tryggja að þau séu laus við vanlíðan, hungur og sjúkdóma auk þess sem ekki megi yfirgefa þau í bjargarlausu ástandi. Dómurinn segir brot mannsins stórfellt.
Þann er því dæmdur í þriggja mánaða fangelsi en dómurinn er skilorðsbundinn því maðurinn hefur ekki áður komist í kast við lögin. Honum er að auki bannað að halda nautgripi eða sýsla með þá með öðrum hætti næstu fimm ár.
Í tilkynningu frá Matvælastofnun um dóminn segir að fyrir liggi að bóndinn uni dóminum og sé hann því endanlegur.