Barði NK losnaði frá bryggju

Uppsjávarveiðiskipið Barði NK losnaði að hluta frá bryggju í miklu hvassviðri í Neskaupstað í nótt. Smárúta með starfsfólk á leið af vakt í álverinu á Reyðarfirði fauk út af veginum milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar.


Björgunarsveitin Gerpir í Neskaupstað var kölluð út eftir miðnættið til að aðstoða við að koma Barða NK að bryggju. Festing við fremri enda skipsins hafði slitnað. Ákveðið var að sigla því frá frystihúsinu yfir að bræðslubryggjunni. Sveitin tryggði betur lausamuni í kringum höfnina.

Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að rétt fyrir miðnætti hafi vindur mælst stöðugur 15 metrar á sekúndu á mæli á frystihúsinu. Þar hafi verið hviður upp á 33 m/s og ein slegið í 43 m/s.

Á Reyðarfirði var björgunarsveitin kölluð út vegna svala sem voru að losna af húsi. Í Breiðdal var óskað eftir aðstoð við að tryggja að hleri fyki ekki við bæinn Þorgrímsstaði. Á Fáskrúðsfirði voru smáhlutir að hluta. Við Vopnafirði er verið að festa auglýsingaskilti sem voru að losna við íþróttavöllinn.

RÚV greinir frá því að smárúta með þremur einstaklingum hafi fokið út af veginum um Hvalnes- og Kambaskriður í nótt. Fólkið slapp án teljandi meiðsla.

Vegirnir um Möðrudalsöræfi og Vopnafjarðarheiði eru lokaðir og verða það til hádegis, hið minnsta. Verið er að athuga stöðuna milli Djúpavogs og Hafnar, þar sem var lokað í gærkvöldi. Krapi er í Vopnafirði og á Jökuldal, hált á Fagradal og Fjarðarheiði og hálkublettir á Vatnsskarði.

Appelsínugul viðvörun er í gildi til að minnsta kosti miðnættis á morgun vegna norðvestan storms og hríðar. Almannavarnir funda með Veðurstofunni og Vegagerðinni klukkan 11.

Mynd: Hlynur Sveinsson

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.