Skip to main content

Barningur í byrjun en byr nú með Sigurgeir sundkappa

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. júl 2025 15:53Uppfært 23. júl 2025 16:02

Sundkappinn Sigurgeir Svanbergsson hefur þegar þetta er skrifað synt í Ermasundi í tæpar níu klukkustundir og sækist sundið allbærilega þrátt fyrir töluverðar mótöldur snemma í morgun.

Draumur Eskfirðingsins Sigurgeirs Svanbergssonar að synda eitt erfiðasta sjósund heims milli Englands og Frakklands varð að veruleika eldsnemma í morgun þegar hann lagðist loks til sunds eftir margra daga bið eftir hentugum aðstæðum.

Kappinn hóf sund sitt klukkan 6.45 í morgun að íslenskum tíma og hefur því, þegar þetta er skrifað, synt í hartnær níu klukkustundir. Honum sækist sundið bærilega en veður hefur verið allbærilegt og öldugangur með minnsta móti. Bjartsýni ríkir meðal aðstoðarfólks hans að hann nái að ljúka þessu erfiða sundi en það yrði þá því sem næst í niðamyrkri seint í nótt að sögn hans betri helmings Sóleyjar Gísladóttur þegar Austurfrétt náði tali af henni fyrir stundu.

„Við segjum bara allt gott hér á miðju hafi. Þetta gengur allt en hefur verið nokkuð bras. Það gekk mjög vel fyrst en svo snérust straumar þannig að mótöldur komu á móti og það tók sinn toll og gerði honum erfitt fyrir. En hann er mjög brattur enn þrátt fyrir mótbyr og líður bara vel þó blási á móti.“

Sóley segir ljóst orðið að nái Sigurgeir að ljúka sundinu og stíga á land Frakklandsmegin Ermasund verði það í niðamyrkri í nótt.

„Það er orðið alldimmt hér um nætur en við vissum reyndar líka að það er mjög algengt að menn ljúki sundinu að næturlagi í myrkri. Reglan er, þar sem sundið er svo langt, að menn annaðhvort byrja að synda í myrkri eða enda í myrkri. Fólk hér um borð í bátnum sem fylgir honum er bjartsýnt á að hann muni ná að ljúka þessu en það eru líka nokkrir um borð bara að ná sér af sjóveiki sem herjaði hér á nokkra fyrr í dag þegar sjórinn var hvað úfnastur. Af okkur fimm sem erum hér saman þá urðu einir þrír sjóveikir með tilheyrandi vandræðagangi.“

Mynd tekin af Sigurgeir fyrir hálfri klukkustund síðan. Barningur og mótöldugangur var um tíma en honum sækist sundið allbærilega þrátt fyrir það og sýnir engin merki þess að hann ætli sér ekki að ljúka þessari áskorun. Mynd Aðsend