Bátur sökk í Seyðisfjarðarhöfn
„Þetta er gamall bátur sem legið hefur lengi óhreyfður hér við bryggju og var kominn langleiðina í að verða ónýtur,“ segir Rúnar Gunnarsson, hafnarvörður á Seyðisfirði, en fiskibáturinn Ramóna sökk í höfninni í gær.
Engin vitni voru að því þegar hann slitnaði frá í óveðrinu sem gekk yfir Austurland í fyrrinótt en vindhraði við höfnina í Seyðisfirði náði 46 metrum á sekúndu þegar verst lét. Né heldur sást þegar báturinn sökk við flotbryggju skammt frá. Ramóna er 25 tonn og var smíðaður af Trésmiðju Austurlands árið 1971 og báturinn því kominn yfir fimmtugsaldurinn.
Rúnar segir bátinn nú liggja að mestu í kafi nema stefnið í fjöruborðinu við flotbryggju sem skemmtiferðaskip notast gjarnan við. „Hann er ekkert fyrir neinu núna en ég veit til þess að eigandinn er eitthvað að skoða hvað hann ætlar að gera næst. En ég tel sjálfur ólíklegt að hann sigli mikið aftur.“