Beita skal ívilnunum til að bæta heilbrigðisþjónustu á Austurlandi
Aðgengi íbúa að sérgreinaþjónustu eða annarri sérfræðiþjónustu á heilbrigðissviði er verst á Austurlandi og Vestfjörðum samkvæmt nýrri skýrslu. Hugsanlega má bæta úr því með að bjóða sérstakar ívilnanir þeim sérfræðingum sem geta hugsað sér að starfa tímabundið á þessum slóðum.
Tveir aðskildir starfshópar ríkisins hafa undanfarið skoðað hvernig bæta megi og jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu í dreifbýli í landinu og þá sérstaklega hvað varðar sérfræðilækna en mikill skortur er á slíkum á stórum svæðum.
Annar hópurinn, leiddur af Reinhard Reynissyni hjá Byggðastofnun, hefur nú skilað tillögum sínum til heilbrigðisráðuneytisins. Þar ber hæst sú hugmynd að nýta skuli heimildir í lögum um Menntasjóð námsmanna til að beita tímabundnum ívilnunum við endurgreiðslu námslána fyrir þá sérfræðinga sem geta hugsað sér að starfa í dreifbýlinu tímabundið og þar miðað við að lágmarki 50 prósent starfshlutfall í tvö ár.
Fyrirmynd þessa kemur frá Noregi þar sem slíkum ívilnunum er beitt í dreifðum byggðum nyrst í landinu og hefur góður árangur náðst. Þetta merkir að sérfræðingar fá tiltekinn afslátt af höfuðstól námslána sinna eða um allt að 20 prósent lækkun hvert ár og geta nýtt það úrræði í allt að fimm ár í senn á svokölluðum „rauðum svæðum“ sem samanstanda hérlendis að mestu af Austurlandi og Vestfjörðum.
Starfshópurinn áætlar að kostnaður ríkisins við slíkar ívilnanir á þessum rauðu svæðum geti numið á milli 70 og 100 milljónum króna árlega og ívilnun hvers og eins jafngildi um 70 þúsund króna hækkun mánaðarlauna fyrir skatt.
Forstjóri Heilbrigðisstofnunar Austurlands, Guðjón Hauksson, hefur um tíma reyfað hugmyndir sem þessar til að auka viðveru sérfræðinga í fjórðungnum en hann á einmitt sæti í hinum starfshóp ráðuneytisins sem enn er að störfum.
Fram kemur í lokaniðurstöðum starfshópsins sem nú hefur lokið störfum að ef farið verði í ívilnunaraðgerðir af hálfu heilbrigðisráðuneytisins ætti verkefnið að hefjast á Austurlandi.