Bensínlítrinn kominn vel yfir 300 krónur víðast á Austurlandi
Verð á bensínlítranum á velflestum stöðvum á Austurlandi er nú kominn vel yfir 300 krónurnar og í tæplega 304 krónur þar sem dropinn er dýrastur. Díselolía er að hækka umtalsvert meira en bensínið.
Verðhækkanir eru örar á eldsneytismarkaðnum þessi dægrin. Á flestum stöðvum hefur lítri af bensíni hækkað um rúmar tíu krónur á aðeins tveimur sólarhringum og lítri af díselolíu enn meira en það eða um allt að átján krónum á sama tímabili.
Það er einungis á einni stöð Orkunnar og stöð Atlantsolíu á Egilsstöðum þar sem fylla má á tankinn undir 300 krónum per lítra.
Eldsneyti hefur hækkað ört og mikið síðustu vikur og mánuði og aldrei sem nú í kjölfar innrásar Rússa inn í Úkraínu en Rússland er risastór olíuútflytjandi og með banni ýmissa þjóða á kaupum á olíu þaðan var mikil hækkun fyrirséð sem er að raungerast í dag. Fræðingar á olíumörkuðum telja þetta aðeins byrjunina á frekari hækkunum.
Ofangreindar tölur miðast við sjálfsafgreiðsluverð án vildarafsláttar og eru fengnar af vefnum GSMBensín sem birtir reglulega nýjustu eldsneytisverð á landsvísu.