Berglind Harpa gefur kost á sér í oddvitasætið
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 01. feb 2022 09:08 • Uppfært 01. feb 2022 09:08
Berglind Harpa Svavarsdóttir varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi og bæjarfulltrúi flokksins í Múlaþingi gefur kost á sér í 1. sæti á framboðlista flokksins í sveitarfélaginu fyrir sveitastjórnakosningarnar i vor.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá henni. Berglind Harpa sinnir einnig formennsku í byggðaráði og heimastjórn á Seyðisfirði, auk þess að vera varaformaður í svæðisráði Austursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs. Árin 2018-2020 var hún bæjarfulltrúi á Fljótsdalshéraði ásamt því að sinna formennsku í fræðslunefnd.
Berglind er 46 ára hjúkrunarfræðingur með meistaragráðu í heilbrigðisvísindum með áherslu á stjórnun innan heilbrigðisþjónustunnar. Hún starfar sem forstöðumaður í dagþjónustu eldri borgara á Egilsstöðum.
„Mikil áhersla er lögð á sameiningar sveitarfélaga í dag og með henni kemur fram gríðarlegur kraftur vegna samlegðar og aukins fjármagns í þau uppbyggingarverkefni sem veita íbúum betri lífsskilyrði.
Heimastjórnir í hverjum byggðakjarna Múlaþings hafa sannað sig og sameiningin tekist ákaflega vel þrátt fyrir áföll vegna náttúruhamfara og alheimsfaraldurs.
Mikil uppbygging er innan Múlaþings, stór tækifæri og framkvæmdir eru víða í gangi innan sveitarfélagsins og öflugar samgöngubætur milli byggðarlaganna fara í útboð á þessu ári.
Tækifæri landsbyggðarinnar hafa aukist gríðarlega þrátt fyrir erfiða tíma vegna COVID-19. Samkomutakmarkanir ýttu af stað viðurkenndum tæknibreytingum í heimsfaraldrinum sem opna á fjölda starfa óháð staðsetningu, tækifærum til menntunar í heimabyggð og öfluga fjarþjónustu.
Þetta er fagnaðarefni fyrir landsbyggðina og sveitarstjórnarfólk verður að standa vörð um að þessi þróun eflist enn frekar í þessa átt,“ segir Berglind.
Hún leggur áherslu á að standa vörð um þau tækifæri sem eru framundan, framkvæmdir, ábyrgan rekstur og alhliða uppbyggingu innan alls sveitarfélagsins.
Valið verður á framboðslistann í prófkjöri sem haldið verður 12. mars.