Skip to main content

Berjaspretta að minnsta kosti tveimur vikum fyrr á ferð en í meðalári

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 16. júl 2025 15:23Uppfært 16. júl 2025 15:23

Spretta berja og annars gróðurs virðist að minnsta kosti tveimur vikum fyrr á ferð en í meðalári. Einstakur hlýindakafli í maí og votviðri í júní hafa gert þetta að verkum.


Austurfrétt hefur spurnir af því að víða á Austurlandi sé komið töluvert af krækiberjum og jafnvel bláberjum. Sömu sögu er að segja um annan gróður.

„Við erum nýkomin úr Kringilsárrana og þar var allt blómstrandi, sem gerist yfirleitt ekki fyrr en í byrjun ágúst. Gróðurinn virðist tveimur vikum fyrr á ferð en venjulega, jafnvel enn meira,“ segir Kristín Ágústsdóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Austurlands.

Veturinn var mildur en í maí gerði einstakan hlýindakafla þar sem gróður fór að springa út. Snemma í júní gerði lítið hret en þótt aðeins hægði á sprettunni í mánuðinum vegna kulda kom um leið nauðsynleg úrkoma þannig að sprettan fór aftur af stað þegar hlýnaði.

„Það voru komnir sætukoppar á bæði krækiberja- og bláberjalyng strax í maí. Úrkoman í júní virðist hafa verið góð og aldrei orðið of hvasst,“ segir Kristín.

Spretta í túnum hefur fylgt sömu lögmálum og annar gróður. Þess vegna er heyskapur á Austurlandi fyrr á ferðinni en oftast áður og gengur vel, eftir því sem Austurfrétt kemst næst.

Út frá þessu virðist útlit fyrir góða berjauppskeru síðar í sumar og haust. Kristín varar fólk þó við að fara ekki of geyst af stað. „Berin þurfa trúlega aðeins lengri tíma til að verða eins góð og þau geta. Það þarf því að standast freistinguna til að byrja ekki of snemma að tína en útlitið er gott.“