Berst áfram fyrir óbreyttri staðsetningu Kiosk 108
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 02. jan 2024 15:55 • Uppfært 02. jan 2024 13:35
Listakonan Monika Fryčová stendur fyrir undirskriftasöfnun til bæjaryfirvalda í Múlaþingi um að listaverk hennar og menningarmiðstöð Kiosk 108, sem stendur við Lónið á Seyðisfirði, fái að vera þar áfram. Sveitarfélagið vill finna verkinu annan stað.
Listaverkið Stýrishús/Brú, síðar menningarmiðstöðin Kiosk 108, fékk upphaflega stöðuleyfi til eins árs sumarið 2020, það framlengt út árið 2022 en þá gerði Múlaþingi kröfu um að það yrði fjarlægt. Málsmeðferðin var kærð til úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál, sem úrskurðaði sveitarfélaginu í hag. Það fékk þó að standa í ár.
Í haust endurvakti sveitarfélagið athugasemdir um að staðsetning byggingarinnar væri ekki til framtíðar. Sveitarfélagið hafði áður bent á að húsið væri utan lóðamarka á landi sveitarfélagsins, milli Austurvegar 17b og 19c og ekki gert ráð fyrir tengingum við neinar veitulagnir.
Að þessu sinn bættust við athugasemdir um að hætta gæti stafað af staðsetningunni fyrir gesti því bílastæði séu ekki til staðar en nokkur umferð sé þar því svæðið sé hluti af þjónustusvæði hafnarinnar. Þá sé yfirfallsbrunnur fráveitu innan svæðisins en hann geti þurft að þjónusta tafarlaust.
Vilja ekki framlengja meir
Í bókun heimastjórnar segir að þótt húsið sé vinsæll áfangastaður og hafi bætt menningarlíf Seyðisfjarðar þá hafi aldrei verið gert ráð fyrir starfseminni til langs tíma. Því hvetji hún til þess að skoðaðar verði aðrar staðsetningar. Í bókun byggðaráðs er neitað að verða við óskum um aðrar lóðir við Lónið, en boðið fram svæði að Lónsleiru 2-4-6, á meðan það þurfi ekki undir aðra notkun.
Í desember var tekið fyrir erindi Moniku um framlengingu stöðuleyfisins til næsta árs. Því var hafnað af byggðaráði þar sem skilyrði hefði verið sett í vor um að húsið yrði fjarlægt fyrri lok október. Í staðinn er boðinn samningur til næsta árs um aðrar óbyggðarlóðir, svo sem fyrrnefnda lóð við Lónsleiru eða Ferjuleiru 1.
Staðsetningin lykilatriði fyrir verkið
Sem fyrr segir hefur Monika nú hafið undirskriftasöfnun til að þrýsta á um að húsið verði fjarlægt. Í texta sem fylgir henni er gagnrýnt að ákvarðanir um það hafi verið teknar í fjarveru Moniku þegar hún hafi verið að koma fram fyrir hönd Íslands á listahátíðum erlendis. Hún lýsir ákvörðuninni sem fordæmalausri og öfgakenndri.
Þar segir að Kiosk 108 hafi skilað árangri í að laða að heimafólk, ferðafólk og listafólk en fengið takmarkaðan stuðning eða skilning af hálfu Múlaþings auk þess sem staðið hafi verið skil á opinberum gjöldum og kröfum. Staðsetningin sé hluti af verkefninu en þær tillögur sem sveitarfélagið hefur lagt fram henti ekki. „Yfirvofandi lokun stofnar ekki aðeins verki listamannsins í hættu heldur einnig samstarfi stofnana, listamanna og menningarsamfélagsins.“