Betri upplifun að hafa nýja veiðihúsið á afskekktari stað
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 15. apr 2025 11:26 • Uppfært 15. apr 2025 11:27
Six Rivers, sem stendur að baki laxveiði í ánum í Vopnafirði, hefur sótt um leyfi fyrir nýrri staðsetningu á nýju veiðihúsi við Hofsá. Húsið verður innan við innsta bæ í Hofsárdal.
Veiðihúsið verður í landi Einarsstaða, sem er meðal þeirra jarða sem Six Rivers hefur eignast á undanförnum árum. Veiðihúsið verður á bakka Hofsár um 1,3 km fyrir innan sjálfa Einarsstaði.
Verið er að breyta aðalskipulagi Vopnafjarðarhrepps og vinna deiliskipulag fyrir svæðið en þessi staðsetning er tiltölulega nýtilkomin. Í rökstuðningi með skipulagstillögunni segir að ákveðið hafi verið að að staðsetja nýja veiðihúsið á afskekktari stað vegna áherslu á aukna upplifun veiðimanna. Talað er um mikilvægi glæsilegs útsýnis yfir ána.
Einarsstaðir eru innsti bærinn í Hofsárdal. Bærinn er austan við ána en norðan hennar er Bustarfell innsti bærinn. Það er aðeins utar. Núverandi veiðihús, Árhvammur er síðan heldur fyrir utan Bustarfell.
Um er að ræða töluverða framkvæmd. Annars vegar veiðihús með plássi fyrir allt að 20 gesti og hins vegar starfsmannahús. Áætlað er að byggingarnar verði samanlagt 1.500 fermetrar. Þá þarf að leggja nýjan veg inn í Einarsstaði. Verið er að afmarka veglínuna.
Ekki bárust teljandi athugasemdir við skipulagstillögurnar áður en frestur til þess rann út í lok mars. Þær stofnanir sem að málinu koma áskilja sér þó frest til að gera það síðar, til dæmis getur Minjastofnun ekki veitt umsögn áður en fornleifaskráning liggur fyrir og hún er ekki tilbúin. Samkvæmt tímalínu er vonast til að skipulagið liggi fyrir í lok sumars.
Bygging nýja veiðihússins er hluti af endurnýjun veiðihúsanna sem tilheyra Six Rivers verkefninu. Í fyrra var nýtt veiðihús við Miðfjarðará í Bakkafirði tekið í notkun.
Séð yfir núverandi veiðihús við Hofsá, Árhvamm, í austur að Þorbrandsstöðum.