Bíða enn svars um hvenær hægt sé að bjóða út næstu varnargarða á Norðfirði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 25. ágú 2023 15:21 • Uppfært 25. ágú 2023 15:30
Bæjarstjóri Fjarðabyggðar segist vonast eftir að svör berist sem fyrst um hvort hægt veðri að bjóða út næsta áfanga snjóflóðavarna fyrir ofan byggðina í Neskaupstað. Ráðherra umhverfismála segir málið í „jákvæðri skoðun.“
Hönnun varnanna í Nes- og Bakkagili var kynnt í byrjun mars. Í lok mánaðar féllu snjóflóð á því svæði sem varnirnar hefðu átt að grípa. Það hefur aukið þrýsting á að farið verði í framkvæmdir.
Af hálfu Fjarðabyggðar og íbúa hefur verið hvatt til þess að verkið verði boðið út í haust. „Bæði við og aðrir sem koma að hafa unnið að hönnun og öðrum atriðum þannig að allt sé tilbúið þannig hægt sé að bjóða verkið út í haust,“ segir Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Málið var tekið upp á fundi með Guðlaugi Þór Þórðarsyni, umhverfis-, loftslags- og orkumálaráðherra í síðustu viku. Tilgangur þess fundar var þó að ræða nýja úttekt á atvinnuhúsnæði á hættusvæði C.
„Við lögðum mikla áherslu á að við færum að fá svör. Ég vona að við fáum svör í næstu eða þar næstu viku um hvenær við megum fara af stað,“ segir Jóna Árný.
Guðlaugur Þór vildi lítið láta uppi þegar Austurfrétt ræddi við hann eftir fundinn. „Allt sem snýr að Norðfirði er í mjög jákvæðri skoðun. Það kemur niðurstaða fyrr en síðar og verður kynnt þegar hún liggur fyrir.“
Jóna Árný segir skipta máli að halda verkinu í gangi. „Útboð er bara fyrsta skrefið því þetta eru nokkurra ára framkvæmdir. Það myndi skipta samfélagið á Norðfirði máli að verkið yrði boðið út í haust og fá síðan eðlilegan framgang þess í framhaldinu.“