Bíða rannsókna ISOR til að meta frekari boranir á Djúpavogi
Hinir austfirsku Borbræður luku nýverið borunum á tveimur rannsóknarholum til viðbótar við það sem áður hafði verið borað við Djúpavog og er nú beðið, af hálfu HEF-veitna, mælingarbíls Íslenskra orkurannsókna (ISOR) til að mæla nýju holurnar. Niðurstaða þeirra mun ráða því hvar skal borað næst.
Heitavatnsleit á Djúpavogi hélt áfram í byrjun febrúar eftir fyrri boranir í haust sem leið. Að þessu sinni voru tvær nýjar rannsóknarholur boraðar og lauk þeirri vinnu í lok febrúar.
Í kjölfar borana HEF-veitna í haust fékk fyrirtækið til sín sérstakan mælingabíl Íslenskra orkurannsókna sem meðal annars notast við hljóðsjá sem nær að mynda sprungur, hita, stefnu auk þess að hallamæla hverja holu. Úr þeim upplýsingum var nytsamt hitalíkan í þrívídd unnið en vonir standa til að nýju holurnar nýtist til að uppfæra líkanið svo auðveldara verði að staðsetja vinnsluhæfa holu í kjölfarið.
Von er á ISOR til mælinganna á næstu dögunum svo uppfært líkan þeirra gæti verið tilbúið strax í næsta mánuði.
Borinn Blámi að störfum á Djúpavogi í síðasta mánuði. Fyrstu niðurstöður benda til að jarðhitaæðin sem leitað er að sé ekki ein heldur er eitthvað flóknara samspil á ferðinni. Mynd HEF-veitur