Skip to main content

Bíður eftir ráðum sérfræðinga háskólans um hvernig eigi að bregðast við áliti Umboðsmanns

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 27. maí 2025 11:41Uppfært 27. maí 2025 11:44

Inga Sæland, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur óskað eftir því að Lagastofnun Háskóla Íslands veiti ráðgjöf um hvernig ráðuneytið eigi að bregðast við því að starfsmaður þess hafi verið úrskurðaður vanhæfur við staðfestingu strandsvæðisskipulags Austurlands. Ráðherra segist taka álit Umboðsmanns Alþingis í málinu alvarlega.


Umboðsmaður gaf út álit um að starfsmaður innviðaráðuneytisins hefði verið vanhæfur við meðferð málsins í ráðuneytinu þar sem hann hefði komið að því á fyrri stigum sem starfsmaður Skipulagsstofnunar. Álit Umboðsmanns er ekki lagalega bindandi en hann lagði fyrir ráðherra skipulagsmála að skoða hvort og hvaða áhrif álitið hefði á staðfestinguna. Ráðuneytið hefur þrjá mánuði til að svara en rúmur mánuður er liðinn frá útgáfu álitsins.

Í samtali við Austurfrétt í kjölfarið sagði Hafsteinn Dan Kristjánsson, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík, að vanhæfið leiddi ekki sjálfkrafa til ógildingar. Til þess þyrfti að horfa til fleiri hagsmuna í málinu. Líklegast væri að ráðherra tæki aðeins staðfestinguna sjálfa aftur til meðferðar. Teldi ráðherra frekari annmarka á málinu gæti hann sent það til baka á byrjunarreit.

Ráðherra ekki tilbúinn að tjá sig um áhrif á leyfisveitingar


Í fyrirspurnatíma á Alþingi í síðustu viku sagði Inga Sæland frá því að ráðuneytið hefði leitað til Lagastofnunar Háskóla Íslands eftir ráðleggingum um hvernig skyldi bregðast við álitinu. Hún sagði það hafa verið gert því „grafalvarlegt“ væri þegar Umboðsmaður benti á skort á hæfi og því væri tekið á af fullri alvöru.

Inga var þarna að svara fyrirspurn Jónínu Brynjólfsdóttur, varaþingmanns Framsóknarflokksins og forseta sveitarstjórnar Múlaþings. Jónína hvatti Ingu til að bregðast hratt við til að eyða réttaróvissu. Þá spurði hún ráðherrann hvort hún teldi álitið hafa einhver áhrif á þær leyfisveitingar sem unnið væri að samkvæmt skipulaginu, til dæmis í Seyðisfirði.

Inga sagðist ekki geta tjáð sig um það að svo stöddu, fyrst yrði beðið eftir niðurstöðu sérfræðinga HÍ. Hins vegar sé alltaf rétt að skoða hvernig hægt sé að gera betur og lagfæra eftir álit sem þetta.