Bílanaust flytur sig um set í Kleinuna á Egilsstöðum
Eftir að hafa verið á söluskrá um rúmlega eins árs skeið hefur húsnæði gömlu vínbúðarinnar í Kleinunni á Egilsstöðum loks verið selt. Þangað mun Bílanaust flytja innan tíðar.
Kaupverðið liggur ekki á lausu hjá Ríkiskaupum en eignin á neðstu hæð Kleinunnar svokölluðu að Miðvangi 2-4 hefur staðið auð allar götur frá því að Vínbúðin sem þar var til húsa flutti neðar í götuna í Miðvang 13.
Samkvæmt upplýsingum frá forráðamönnum Bílanausts þarf ekki að breyta miklu í verslunarplássinu öðru en að skipta út innréttingum og það á góðri leið nú þegar. Verslun Bílanausts er nú staðsett að Sólvangi við hlið Húsasmiðjunnar en það húsnæði er í eigu Vasks sem hyggst opna þar stórverslun þegar leigusamningur Bílanausts rennur út í haust.
Ráð er gert fyrir að nýja verslunin opni fyrir lok september.
Búið að rífa út gömlu innréttingarnar Vínbúðarinnar og ekki mikið meira eftir en setja upp þær nýju og opna. Mynd AE