Bílastæðagjaldtaka Isavia á Egilsstaðaflugvelli hefst 18. júní

Þrátt fyrir mótbárur sveitarfélaga austanlands og gnótt mótmæla einstaklinga á samfélagsmiðlum mun Isavia hefja innheimtu bílastæðagjalda við Egilsstaðaflugvöll þann 18. júní næstkomandi.

Ríkisstofnunin mun því ekki bakka með ákvörðun sína um gjaldtöku fyrir stæðin við flugvöllinn á Egilsstöðum, Akureyri og í Reykjavík en þær hefjast formlega þann 18. júní samkvæmt upplýsingum frá Isavia.

Það þrátt fyrir bókanir allra sveitarfélaganna á Austurlandi auk samtaka sveitarfélaga á Austurlandi, SSA, þess efnis að hætt verði alfarið við þau áform enda sé lögmætið vafasamt, það mismuni fólki eftir búsetu og auki enn frekar álögur á íbúa landsbyggðarinnar enda sé flugið eina leiðin til að sækja ýmsa nauðsynlega þjónustu. Óskað var formlegra funda með innviðaráðherra snemma í vetur vegna þessa en ekki hefur ráðherra orðið við því.

Malar- og grasstæði í meirihluta

Eitt það sem fer hvað mest fyrir brjóst Austfirðinga varðandi gjaldtökuna er að ólíkt því sem gerist við flugvellina á Akureyri og í Reykjavík er aðeins lítill hluti bílastæða við Egilsstaðaflugvöll malbikaður og lýstur. Hlutföllin, samkvæmt upplýsingum Austurfréttar frá Isavia, er að malbikuð stæði við Egilsstaðaflugvöll telja alls 100 talsins og þau með lýsingu að stórum hluta en meginhlutinn, 170 stæði, eru á möl eða grasi og engin lýsing þar.

Inni í þeim tölum er ekki tekið tillit til að bílaleigurnar á flugvellinum hafa yfirráðarétt yfir vel rúmlega helmingi malbikaðra stæða við Egilsstaðaflugvöll svo raunfjöldi malbikaðra og lýstra stæða er vel innan við 50 talsins. Aðrir þurfa að leggja bifreiðum sínum á möl eða jafnvel á grasi eftir atvikum og umferð. Möl og grasi sem breytist gjarnan í drullu og polla að vetrarlagi eða þegar rignir að sumarlagi.

Sýnt smá lit

Isavia fyrir sitt leyti hefur brugðist lítillega við kröftugum mótmælum við þessum hugmyndum þegar þær voru kynntar í byrjun ársins. Þar aðallega að nú er hægt að leggja við Egilsstaðaflugvöll í fimm klukkustundir án þess að gjald sé tekið. Í fyrstu atrennu var fólki aðeins heimilt að eyða fimmtán mínútum við völlinn áður en gjaldtaka hæfist.

Það hins vegar ekki breyst að ef fólk hefur ekki áhuga að greiða gegnum sérstök tiltekin greiðsluöpp samkvæmt óskum Isavia og vill bara greiða gegnum heimabanka sinn bætist sérstakt innheimtugjald þar ofan á allt saman. Þá bætast tæpar 1500 krónur ofan á bílastæðagjaldið sjálft og það aðeins í boði í tvo sólarhringa eftir að farið er frá vellinum. Hærri þóknun bætist þá við.

Stóreykur ferðaupplifun Austfirðinga

Fjölmargir hafa lagt orð í belg á samfélagsmiðlum austanlands vegna þessa nú síðasta sólarhring sem og þegar áformin voru fyrst kynnt í upphafi ársins. Stór hluti þeirra gera grín að þeim rökum Isavia að nýtt bílastæðagjald „bæti þjónustu og ferðaupplifun.“

Formaður Miðflokksins í Múlaþingi, Þröstur Jónsson, sagðist þar meðal annars „fyrr vera settur í járn en borga þennan skatt“ og undir það tóku tugir Austfirðinga með þumli á fésbókarvef íbúa Fljótsdalshéraðs.

Aðrir þar bentu meðal annars á að auka bílastæðisgjald breyti litlu því flugfargjöld til og frá Austurlandi hafi hækkað svo ört síðustu misserin að þau væri dropi í það haf kostnaðar. Enn aðrir svo reiðir að fram komu hugmyndir um sérstök skutlbandalög svo fólk komist alfarið hjá því að leggja bílum sínum við völlinn.

Á sama vef reiknaði Jóhannes Örn Jóhannesson út að eitt stæði við Egilsstaðaflugvöll um mánaðarskeið, 38.500 krónur, væri dýrara en fermetraverð fyrir húsnæði á Egilsstöðum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.