Bíll endaði ofan í læk í Breiðdal
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 28. júl 2023 17:18 • Uppfært 28. júl 2023 21:31
Ekki er talið að alvarleg meiðsl hafi orðið á fólki þegar bíll keyrði út í lækjarfarveg í Breiðdal, utan við bæinn Ós, í dag. Tveir voru fluttir á sjúkrahús til nánari skoðunar.
Um borð í bílnum voru tveir erlendir ferðamenn, hjón. Tildrög slyssins eru óljós en bíllinn lenti einhverra hluta vegna út fyrir þjóðveginn, þar nokkra leið uns hann endastakkst ofan í lækinn.
Tilkynning um slysið barst Neyðarlínu rétt fyrir klukkan fjögur í dag. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi voru hjónin flutt með sjúkrabíl á sjúkrahús til aðhlynningar en ekki er talið að þau séu alvarlega slösuð.
Bíllinn skemmdist hins vegar mikið og er óökufær.
Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var sagt að bíllinn hefði oltið ofan í Breiðdalsá. Beðist er velvirðingar á þeim misskilningi.