Skip to main content

Birgir Jónsson skipaður skólastjóri Verkmenntaskóla Austurlands

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 23. júl 2025 11:13Uppfært 23. júl 2025 11:49

Birgir Jónsson, sagnfræðingur og kennari, hefur verið skipaður skólameistari Verkmenntaskóla Austurlands til næstu fimm ára.

Það hefur Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, formlega staðfest en Birgir mun hefja störf þann 1. ágúst næstkomandi. Birgir er í grunninn sagnfræðingur en hefur einnig lokið meistaragráðu frá Háskóla Íslands í opinberri stjórnsýslu.

Birgir er vel þekktur úr skólastarfinu í Verkmenntaskólanum allar götur frá árinu 2019. Þar hefur hann á því tímabili sinnt verkefnastjórn og bæði verið aðstoðarskólameistari sem og settur skólameistari tímabundið eftir að Eydís Ásbjörnsdóttir, fyrrum skólameistari, tók sæti á Alþingi um áramótin. Þar áður sinnti Birgir kennslu og skólastjórn við Eskifjarðarskóla um langa hríð. Þá hefur Birgir einnig gert sig gildandi í sveitarstjórnarmálum um hríð.

Staða skólameistara var auglýst af hálfu mennta- og barnamálaráðuneytisins fyrir nokkru og bárust fjórar umsóknir alls en einn umsækjandi dró umsókn sína til baka áður en til kom.

Mjög spennandi verkefni

Sjálfur er Birgir himinlifandi með skipunina og segir sitt helsta markmið að halda áfram með það mjög góða starf sem unnið hefur verið í skólanum undanfarin ár.

„Þetta er mjög spennandi. Ég er búinn að vera þarna í sex ár og þekki því skólann og starfið innandyra mjög vel. Þarna tek ég við mjög góðu búi af þeim er hafa farið á undan mér og vill halda því góða starfi áfram. Auðvitað er alltaf eitthvað sem má breyta eða bæta en áherslan fyrst um sinn er að halda góðu starfi skólans áfram.“

Ráðherra Guðmundur Ingi Kristinsson við hlið nýskipaðs skólameistarans en Birgir mun hefja störf um mánaðarmótin. Mynd Mennta- og barnamálaráðuneytið