Skip to main content

Birta drög að viðbragðsáætlun vegna skriðufalla á Seyðisfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 02. feb 2022 16:08Uppfært 02. feb 2022 16:10

Rúmu ári eftir skriðuföllin á Seyðisfirði eru komin fram ítarleg drög að formlegri viðbragðs og hópslysaáætlun allra hugsanlegra viðbragðsaðila þegar og ef slíkar hamfarir endurtaka sig í framtíðinni.

Með áætluninni, sem er alls um 70 síður, er markmiðið að tryggja skipulögð viðbrögð vegna skriðufalls á Seyðisfirði og ekki síður tryggja að þolendum berist aðstoð eins fljótt og kostur er. Í henni er kveðið skýrt á um verkefni hvers og eins aðila sem að kemur og snertir rétt og snör viðbrögð við öllum þremur hættustigum Almannavarna: óvissustigi, hættustigi og neyðarstigi.

Fjallað er um nákvæmar skilgreiningar mismunandi hættustiga, allar boð og samskiptaleiðir hvers viðbragðsaðila skertar og skýrðar í þaula, stjórn aðgerða skilgreind auk nákvæmra upplýsinga um nauðsynleg starfssvæði á vettvangi. Þá fylgir og ítarleg rýmingaráætlun.

Áætlunin er fyrst og fremst til leiðbeiningar en felur ekki í sér endanleg fyrirmæli. Það er Lögreglustjórinn á Austurlandi í samráði við almannavarnardeild ríkislögreglustjóra sem ber ábyrgð á virkni áætluninnar. Hana skal uppfæra að minnsta kosti á þriggja ára fresti og reyna skal að æfa alla þætti áætlunarinnar að lágmarki á fjögurra ára fresti.

Áætlunin í heild sinni.