Bjartsýni ríkjandi fyrir nýhafna síldarvertíð
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 26. ágú 2025 12:45 • Uppfært 26. ágú 2025 12:45
Jón Kjartansson kom með fyrsta hreina síldarfarminn á þessari vertíð þegar skipið landaði á Eskifirði á sunnudag. Austfirsku skipin snúa sér að síldinni eitt af öðru nú þegar makrílveiðinni er að ljúka.
Jón Kjartansson landaði 1200 tonnum af síld á Eskifirði á sunnudag. Aflinn fékkst úti fyrir Héraðsflóa og tóku veiðarnar tvo daga.
Skipið fór aftur til veiða að lokinni löndun í morgun en á svæðinu er fyrir annað skip frá Eskju, Aðalsteinn Jónsson. „Þetta er mjög góð síld sem við erum ánægðir með. Núna er unnið á vöktum í frystihúsinu,“ segir Bjarni Már Hafsteinsson, skipstjóri á Jóni Kjartanssyni.
Miðað við að hvalir hafa síðustu daga og vikur elt síldartorfur inn á Austfirði virðist nóg framboð af henni. Bjarni segir bjartsýni fyrir síldarvertíðinni. „Við erum mjög bjartsýnir fyrir henni. Við byrjum heldur fyrr en við höfum gert síðustu ár. Við eigum leikandi að ná þeim kvóta sem við höfum.“
Rættist úr makrílvertíðinni
Makrílveiðum austfirsku skipanna er nú að ljúka. Samkvæmt tölum úr gagnagrunni Fiskistofu eru enn um 17.000 tonn eftir, en þess ber að geta að tölur þar eru nokkrum dögum á eftir. Þannig vantar tæplega 500 tonna farm sem Börkur kom með til Neskaupstaðar í gær og væntanlega síðasti makrílfarmurinn sem unninn verður þar á þessari vertíð.
Jón Kjartansson landaði sínum síðasta makrílfarmi þann 14. ágúst síðastliðinn, um 760 tonnum. Vertíðin fór hægt af stað og í fyrstu flökkuðu skipin milli íslensku lögsögunnar og Smugunnar. Veiðin glæddist vart fyrr en eftir verslunarmannahelgi og endaði á að vera að mestu í Smugunni.
Af þeim rúmlega 110.000 tonnum af makríl sem landað hefur verið hérlendis í sumar veiddust 74 þúsund tonn utan landhelgi, það er í Smugunni, en um 37 þúsund innan íslensku lögsögunnar. Skip frá Hornafirði og Vestmannaeyjum eru þar enn við veiðar.
„Makrílvertíðin gekk vel, bæði veiðar og vinnsla og við kláruðum okkar veiðiheimildir. Stór hluti var veiddur í Smugunni, enda fundu rannsóknaskipin lítið af makríl inni í þeirri íslensku. Tímabilið virðist lengra en í fyrra því það er enn veiði í Smugunni,“ segir Bjarni.
Rúmlega sólarhringssigling getur verið af veiðislóð þaðan til Austfjarða en heldur styttra er að fara í síldina. Jón Kjartansson fór frá Eskifirði klukkan 10:30 í morgun. „Við ættum að vera komnir á Héraðsflóann um 15:30 í dag. Síðan vonumst við til við að vera inni aftur fyrir helgi.“