Bjartsýnn á að lausn finnist með Faktorshúsið á Djúpavogi

Enn er alls óljóst hvaða hlutverki hið merka Faktorshús á Djúpavogi mun gegna í framtíðinni en auglýsing eftir samstarfsaðilum í því skyni nýverið bar engan árangur.

Áfram er unnið að endurbótum á þessu fornfræga húsnæði sem stendur við hlið Löngubúðar en þær hafa staðið yfir um tíma. Utandyra er allt að mestu frágengið en innandyra hefur verið flóknara að ljúka verkinu því aðstaðan þarf að taka eitthvað mið af þeirri starfsemi sem þar skal vera og meðan það liggur ekki fyrir er vandasamt að halda þar áfram.

Hinar og þessar hugmyndir hafa komið fram um nýtingu hússins síðustu misserin. Íbúar sjálfir hafa margir séð fyrir sér nokkurs konar samvinnu- eða fjölnotahús þar sem einstaklingar eða smáfyrirtæki gætu haft aðstöðu meðan aðrir vilja sjá einhvers konar listsköpun innan veggja hússins. Engar ákvarðanir liggja þó fyrir.

Gauti Jóhannesson, staðgengill sveitarstjóra á Djúpavogi, er þrátt fyrir allt bjartsýnn á að lausn finnist fyrr en síðar þó lítt hafi gengið upp að undanförnu.

„Uppbyggingu þess verður haldið áfram og sömuleiðis unnið áfram í að finna því framtíðarhlutverk. Húsið er staðsett  í miðju bæjarins með fallegu útsýni yfir höfnina og ég hef enga trú á öðru en það fái verðugt hlutverk á endanum.“

Langabúð og Faktorshús eru áberandi byggingar á besta stað í bænum en þrátt fyrir ýmsa möguleika gengur erfiðlega að finna því síðarnefnda hlutverk. Mynd Djúpivogur.is

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.