Skip to main content

Bjartsýnn á landaskipti vegna nýs golfvallar

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 12. maí 2022 13:12Uppfært 12. maí 2022 13:22

„Viðræður standa enn yfir vegna málsins en það er meiri bjartsýni en ekki að þetta gangi allt saman upp,“ segir Björn Ingimarsson, sveitarstjóri Múlaþings.

Viðræður Múlaþings við landeigendur á Eiðum um hugsanleg skipti á landi hafa staðið yfir um tíma en þar er rætt um spildu úr landi Eiða undir nýjan golfvöll Héraðsbúa í skiptum fyrir svipaða spildu í landi Grafar sem tilheyrir sveitarfélaginu.

Forsvarsmenn Golfklúbbs Fljótsdalshéraðs (GF) fóru þess á leit við Múlaþing í lok síðasta árs að fá úthlutað nýju svæði fyrir framtíðarlegu nýs golfvallar. Núverandi golfvöllur klúbbsins í landi Ekkjufells við Fellabæ býður ekki upp á neina stækkun, viðhald allt flókið vegna legu vallarins og leigugjöld fyrir völlinn of há til að það borgi sig að vera þar til til lengdar.

Óskin beindist sérstaklega að svæði í landi Eyvindarár skammt utan við þéttbýlið á Egilsstöðum en sveitastjórn taldi það ekki vænlegan kost undir golfvöll og kannaði þess í stað vilja landeigenda að Eiðum um skipti á landi. Þar er töluvert af hentugu landi undir golfvöll en ekki síður styrkir golfvöllur til muna rekstur ferðaþjónustu á staðnum.

Frá Eiðum. Ferðaþjónusta á svæðinu mun njóta góðs af hugmyndum um golfvöll hér um slóðir en viðræður um það standa enn yfir.