Skip to main content

Bjóða í gönguferð um nýja varnargarða: Mikil breyting orðin á Seyðisfirði

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 30. ágú 2023 09:32Uppfært 30. ágú 2023 09:37

Seyðisfjörður hefur breytt um svip í sumar samhliða því sem framkvæmdum við snjóflóðavarnir undir Bjólfi hefur undið áfram. Almenningi er í kvöld boðið í kynnisferð um vinnusvæðið.


Engum sem kemur til Seyðisfjarðar þessa dagana dylst að bærinn hefur breyst. Strax við innkomuna í bæinn sést í enda Bakkagarðs sem er orðinn vegur, næst sést hvernig grafið og sprengt hefur verið inn í fjallið og loks skagar ysti endi Öldugarðs út í áttina að áhaldahúsinu.

„Við ætlum að fara upp frá áhaldahúsinu og byrja á að skoða Öldugarðinn. Endinn á honum er að ná fullri hæð. Við erum komnir í lag 26 af 32. Hann á að verða 16 metra hár en endinn er orðinn 13 metrar. Hann verður mjög hár,“ segir Benedikt Ólason, verkstjóri hjá Héraðsverki.

„Síðan förum við ofan við Fjarðargarðinn og sýnum hvernig hann verður. Næst horfum við til fjallsins þar sem við sjáum flóðrásina og hvað er að myndast hjá okkur af efsta hluta Bakkagarðs. Þaðan sjáum við niður eftir honum þar sem hann er kominn í fulla hæð.

Loks förum við niður í Skaganámu þar sem sýnt er hve mikið hefur verið sprengt og hvar stálið var áður en við endum í kaffi og spjalli í vinnubúðunum.“

Auk fyrrnefndra mannvirkja er áformað að reisa keilur fyrir ofan nýja húsbílasvæðisins, utan og ofan við Öldugarðinn. Þær eru enn á hönnunarstigi.

Vinnan gengið framar vonum


Vinna við garðana hefur gengið vel. Í samtali við Austurfrétt í nýverið sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfisráðherra, að ríkið hefði tryggt fjárstreymi í verkið þar sem það væri í raun á undan áætlun.

Benedikt segir Héraðsverk búa að ríkri reynslu sem nýtist vel í verkinu. Margir séu að vinna þarna við sínu fjórðu snjóflóðavarnagarða því fyrirtækið hafi áður reist tvo garða á Norðfirði auk garða á Siglufirði.

„Veðrið hefur unnið með okkur. Það hefur verið þurrt í sumar sem er það sem þarf í svona skriðuefni. Síðan var veturinn mjög góður.

Á vinnuvélunum höfum við hörkumenn, allt heimamenn, sem eru vel þjálfaðir eftir að hafa jafnvel unnið við þetta í áratugi. Við höfum að setja upp grindurnar höfum við verið með unga menn sem kunna það verk orðið utanbókar eftir að hafa verið með okkur á Norðfirði og fengu með sér skólafólk í sumar. Það er nú farið en í staðinn komnir þrír harðduglegir strákar frá Litháen.“

Gengið verður af stað frá áhaldahúsinu á Seyðisfirði að Ránargötu 2 klukkan 18:00. Fólk er minnt á að mæta í útivistarfötum og góðum skóm.