Björguðu fjárhundi úr sjálfheldu

Björgunarsveitin Bára á Djúpavogi var í gær kölluð út til að bjarga smalahundi úr sjálfheldu. Vel gekk að bjarga hundinum en kindurnar, sem verið var að smala, létu sig hverfa á meðan.

„Það var auðvelt að komast að honum ofan frá. Við þurftum að síga 7-8 metra niður að honum og síðan 10 metra niður. Hann var rólegur allan tímann og feginn að komast í bakpokann,“ segir Ingi Ragnarsson, formaður björgunarsveitarinnar.

Atvikið átti sér stað í Hofsdal inn af Álftafirði. Hundurinn hafði farið þar niður kletta af meira kappi en forsjá og treysti sér ekki til að klifra aftur upp. Þá var kallað eftir aðstoð.

Smalarnir tveir biðu eftir hundinum sem mændi upp til þeirra frá klettasyllunni. Kindurnar sem verið var að elta hlupu hins vegar áfram upp í næsta fjall. Ekki var hægt að fara meira á eftir þeim enda komið fram í myrkur þegar björguninni lauk.

Ingi segir ekki algengt að bjarga þurfi hundum úr sjálfheldu en hins vegar er þetta í annað skiptið á nokkrum mánuðum sem austfirskt björgunarsveit er kölluð út í slíkt verk.

Algengara er að björgunarsveitir fari á þessum árstíma til að bjarga kindum í sjálfheldu og nota það þá til æfinga. „Það eru nokkur ár síðan við gerðum það síðast. En þetta er fín æfing, þótt þetta séu dýr.“

Mynd: Björgunarsveitin Bára
 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.