Björgunarafreksins í Vöðlavík minnst á morgun
Þess verður minnst í Vöðlavík á morgun að í ár eru 30 ár liðin frá frækilegu björgunarafreki þyrlubörgunarsveitar varnarliðsins á Keflavík þegar sex skipverjum af Goðanum var bjargað við hrikalegar aðstæður.Þann 18. desember árið 1993 strandaði veiðiskipið Bergvík VE í Vöðlavík. Illa gekk að ná því af strandstað og þess vegna var björgunarskip tryggingafélaganna, Goðinn, sent á vettvang. Það var með taug í Bergvík að morgni 10. desember 1994 þegar það fékk á sig mikið brot og svo annað.
Tveir menn voru í brúnni þegar brotið reið yfir. Kristján Sveinsson, skipstjóri og Geir Jónsson, stýrimaður. Geir tók út með brotinu og fórst hann.
Öll stýritæki eyðilögðust í brúnni og það drapst á vél Goðans þannig það rak að landi. Skipbrotsmenn gátu ekki gert var við sig en björgunarmenn úr landi komu á vettvang um klukkan tíu á morgni og sáu hvenrig komið var. Áhöfnin hafðist þá við á toppi Goðans og ljóst var að þeim yrði ekki bjargað nema með þyrlu.
Loftför Landhelgisgæslunnar urðu frá að hverfa en tvær þyrlur bandaríska varnarliðsins fikruðu sig áfram í hávaðaroki meðfram suðurströndinni. Þær komu á vettvang um klukkan þrjú síðdegis. Björgunin sjálf gekk vel en illa gekk að komast á flugvöllinn á Egilsstöðum. Svo fór að lokum að lent var á bílastæði í miðbæ Neskaupstaðar.
Slysið breytti því að Íslendingar keyptu öflugri þyrlur til björgunar. Áhafnir bandarísku þyrlanna fengu fjölda heiðursmerkja fyrir afrek sitt og mun þetta vera það björgunarafrek í sögu bandaríska flughersins sem flest einstaklingsheiðursmerki hafa verið veitt fyrir.
Sterk tengsl milli bandarískra flughersins og Austfirðinga
Viðburðurinn á morgun er á vegum bandaríska sendiráðsins á Íslandi, í samvinnu við Fjarðabyggð, björgunarsveitirnar, flugherinn og 56. flugsveitina, sem rak þyrlurnar í Keflavík. Hún er enn starfandi innan hersis þótt hún sé ekki lengur hérlendis.
„Sendiráðið og sveitin vilja halda minningunni á lofti því þetta er eitt merkilegasta björgunarafrek sem sveitin hefur unnið. Á leiðinni voru teknar margar erfiðar ákvarðanir sem sífellt þurfti að endurmeta en alltaf var haldið áfram,“ segir Pálmi Benediktsson, úr björgunarsveitarinni Gerpi í Neskaupstað.
Hann segir sterka tengingu hafa myndast milli þyrlusveitanna og austfirskra björgunarsveita í kjölfarið. „Það er sérstakt að bandaríski flugherinn eigi teningar við sjálfboðaliðasveitir hér á Austurlandi. Ég veit bæði til þess að einstaklingar úr sveitunum hafi komið hingað í heimsóknir síðan og eins að austfirskur björgunarsveitarmenn hafi farið erlendis í heimsóknir. Í mörg ár á eftir tók varnarliðið þátt í hátíðahöldum sjómannadagsins í Neskaupstað með flugsýningum og æfingum með björgunarsveitinni.“
Til hátíðahalda helgarinnar er von á einstaklingum erlendis frá sem tóku þátt í björguninni á sínum tíma. Eins munu fjöldi austfirskra björgunarsveitarmanna mæta.
Athöfnin í Vöðlavík hefst á hádegi og er öllum opin.
Frá athöfn í tilefni þess að 20 ár voru liðin frá björguninni. Við það tilefni var minnisvarði afhjúpaður. Mynd: GG