Björgunarsveit kölluð út á Seyðisfirði vegna óveðursástands
Appelsínugul veðurviðvörun er í gildi á Austurlandi öllu og gildir að svo komnu máli til klukkan 13:00 í dag. Vakthafandi veðurfræðingur segir þó að líkur séu á að veður gæti gengið hraðar niður og verið orðið skaplegt í hádeginu. Veðurstofan hvetur fólk til að fresta ferðalögum fram yfir hádegi. Björgunarsveitin Ísólfur hefur verið kölluð út á Seyðisfirði.
Vonskuveður er í Vopnafirði og mælist vindur 24 m/s á Skjaldþingsstöðum og hvassast 39 m/s í hviðum. Samkvæmt Birgi Erni Höskuldssyni veðurfræðingi á Veðurstofunni er veðrið vindstrengjaveður, slær víða niður í sterkum sunnan strengjum. Skaplegt veður er uppi á Héraði en verra norðar í fjórðungnum. Fólk er hvatt til að huga að lausamunum en halda sig annars heima við ef tök eru á. “Það verður leiðinlega hvasst næstu tvo til þrjá tímana en það ætti svo að ganga hratt niður og verða orðið þokkalegt á milli tólf og eittt,” segir Birgir.
Í samtali við Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúa Landsbjargar, kom fram að skömmu fyrir klukkan níu í morgun var björgunarsveitin Ísólfur kölluð út á Seyðisfirði vegna óveðursástands, til að aðstoða við að koma í veg fyrir foktjón og hefta lausamuni. Jón Þór hafði ekki upplýsingar um frekari útköll þegar Austurfrétt ræddi við hann.
Fjarðarheiði er lokuð og hálka eða hálkublettir eru á flestum öðrum leiðum. Ófært er um Öxi og á Breiðdalsheiði og flughált er í Vattarnesskriðum.