Skip to main content

Björgunarsveitin í Neskaupstað leiðbeindi göngufólki úr vanda

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 11. ágú 2023 10:31Uppfært 11. ágú 2023 10:35

Göngufólk á ferð í Norðfirði óskaði í gærkvöldi eftir aðstoð björgunarsveitar eftir að hafa lent í vanda á leið sinni á Nípukoll. Björgunarsveitarmaður segir fólkið hafa sýnt skynsemi með að óska fyrr en síðar eftir hjálp.


Beiðni um hjálp frá hópnum barst um klukkan hálf níu í gærkvöldi. Byrjað var að staðsetja hópinn með sjónaukum og flygildum áður en honum var leiðbeint á rétta braut. Björgunarsveitarfólk fór síðan á móti hópnum og fylgdi honum yfir erfiðasta hjallann.

„Þetta var fjögurra manna hópur sem treysti sér ekki áfram í fjallinu. Fólkið var ekki beint komið í sjálfheldu en það gerði rétt í að halda ekki áfram heldur hringja áður en komið var í meiri vandræði. Þannig slapp þetta allt að mestu fyrir myrkur.

Við staðsettum fólkið í fjallinu og leiðbeindum því áfram í gegnum síma. Síðan voru sex björgunarsveitarmenn sem fóru á móti því og fylgdu því yfir erfiðasta hjallann,“ segir Sveinn Halldór Oddsson Zoega, formaður svæðisstjórnar Landsbjargar á Austurlandi og einn þeirra sem tók þátt í aðgerðunum í gærkvöldi.

Sveinn segir að hópurinn hafi aldrei verið týndur og getað gefið upp góða staðsetningu en til öryggis hafi hópurinn verið staðsettur nánar með sjón.

„Að hafa drónann var ekkert úrslitaatriði fyrir okkur en hjálpaði. Það var þægilegt fyrir okkur gamla fólkið niðri að geta gert þetta svona,“ segir hann hlægjandi.

Aðstæður á Norðfirði í gærkvöldi voru góðar, bjart og stillt veður. „Fólkið tók rétta ákvörðun og kallaði eftir aðstoð meðan það var bjart og staðan ekki orðin mun verri,“ ítrekar Sveinn.

Mynd: Landsbjörg