Björn Ingimarsson næstur því að komast í stjórn ríkisfyrirtækis
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 22. apr 2025 13:09 • Uppfært 22. apr 2025 13:21
Björn Ingimarsson, fyrrum sveitarstjóri Múlaþings, er sá núverandi íbúi Austurlands sem næstur hefur komist því að verða skipaður í aðalstjórn ríkisfyrirtækis samkvæmt nýjum reglum sem unnið er eftir í fyrsta sinn. Þær hafa sætt gagnrýni fyrir að vera andsnúnar fólki af landsbyggðinni.
Daði Már Kristófersson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur síðustu vikur skipað í stjórnir Íslandspósts, Hörpu, Isavia, Landsnets, Landsvirkjunar og Rarik. Það er gert að fengnu áliti þriggja manna valnefnda en þær hafa verið tvær, önnur fyrir orkufyrirtækin.
Til þessa er Björn Ingimarsson eini núverandi Austfirðingurinn sem hafa komist á blað ráðherra en hann var skipaður í varastjórn Landsvirkjunar. Hún eins og hin orkufyrirtækin, og reyndar Íslandspóstur og Isavia, eru með umtalsverða starfsemi á landsbyggðinni, ekki síst Austurlandi.
Ruth Elfarsdóttir, fjármálastjóri Alcoa Fjarðaáls frá 2005-2017, var skipuð í stjórn Landsnets. Í stjórn Íslandspósts er Hrefna Kristín Jónsdóttir, sem ólst upp í Fljótsdal. Björn Ingi Knútsson, fyrrum verkefnastjóri hjá Austurbrú, var á lista valnefndar yfir þá einstaklinga sem töldust hæfir fyrir stjórn Isavia en hann hefur áratugareynslu úr flugrekstri. Hann fékk ekki náð fyrir augum ráðherra. Ekkert þeirra þriggja býr á Austurlandi í dag.
Telur valið ganga gegn byggðastefnu
Á vef fjármálaráðuneytisins má finna upplýsingar um valnefndirnar, þau sem í þeim sitja og mælikvarða þeirra. Meðal annars er lagt upp með breidd sem felist meðal annars í menntun, faglegum bakgrunni, þekkingu og reynslu. Ekki er talað um búsetu.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka sveitarfélaga á Norðurlandi eystra, er meðal þeirra sem hafa gagnrýnt val ráðherra og sagt það ganga gegn byggðaáætlun. „Í landinu er byggðastefna samþykkt af Alþingi Íslendinga og þar er skýrt kveðið á um að það eigi að gæta þessara sjónarmiða við skipan í nefndir og stjórnir opinberra aðila.
Mér finnst þetta vera áhyggjuefni, líka út af því að þetta eru fyrirtæki, eins og þarna erum við að tala um Landsnet sem er að fjalla um gríðarlegt hagsmunamál byggða um allt land. Það skiptir máli að hafa skilning á aðstæðum utan höfuðborgarsvæðisins og ekki síst hvað varðar svona dýrmæt atriði eins og raforkan okkar er og aðgengi okkar að henni.
Þótt ég sé ekki að ætla þessum einstaklingum að hafa ekki einhvern skilning á því að búa úti á landi, þá er það samt alveg þannig og ég hef fundið það í mínum störfum, bæði núverandi og fyrri störfum, að það er bara því miður skortur á skilningi á aðstæðum utan höfuðborgarsvæðisins,“ sagði hún nýverið í samtali við RÚV.
Hörð samkeppni um sæti
Þar er líka birtur listi yfir þá einstaklinga sem gefið hafa kost á sér. Þar eru mörg þjóðþekkt nöfn, þeirra sennilega stærst nafn Katrínar Jakobsdóttur, fyrrverandi forsætisráðherra svo ljóst að samkeppnin um stjórnarsætin var hörð.
En þar má einnig finna Austfirðinga, bæði núverandi og fyrrverandi. Jón Björn Hákonarson, forseti bæjarstjórnar Fjarðabyggðar gaf kost á sér til setu í stjórn Landsvirkjunar en hann var stjórnarformaður þar. Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir, fyrrum framkvæmdastjóri Vök Baths og Ólafur Áki Ragnarsson, fyrrum sveitarstjóri á Vopnafirði og Djúpavogi eru þau sem búa enn eystra og gáfu kost á sér.
Úr hópi brottfluttra má nefna Karl Óttar Pétursson fyrrum bæjarstjóra Fjarðabyggðar, Magnús Gehringer fyrrum þýskukennara við Menntaskólann á Egilsstöðum og Þórunni Maríu Þorbjarnardóttur, formann Landverndar sem er alinn upp á Egilsstöðum. Þar var einnig Sveinn Margeirsson, framkvæmdastjóri hjá Brim sem starfar mikið að málum á Vopnafirði.