Skip to main content

Björgunarbáturinn Hafdís í fyrsta útkallið

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. jún 2010 21:50Uppfært 08. jan 2016 19:21

Nýr björgunarbátur Björgunarsveitarinnar Geisla á Fáskrúðsfirði Hafdís fór í sitt fyrsta útkall, þegar kviknaði í strandveiðibát 19 sjómílur út af Gvendarnesi, milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar, upp úr hádegi í dag. 

bjorgunarbatur_fask_odmag1.jpg,,Útkallið kom upp úr klukkan eitt, við vorum snöggir að sjósetja bátinn, búnir að því klukkan 13:25 og komnir að bátnum, sem þá var komin í tog hjá öðrum bát, klukkan 13:51.  Hafdís gekk vel í þessu fyrsta útkalli og náði um 32 mílna hraða á móti vindi, fullmönnuð með tvær dælur um borð", sagi Grétar Helgi Geirsson björgunarsveitarmaður á Fáskrúðsfiði.

,,Eldsupptök í bátnum voru vegna þess að púströr fór í sundur og það kviknaði í út frá því undir þiljum.  Skipverjum tókst að slökkva eldinn að mestu en ekki var hægt að setja bátinn aftur í gang vegna þess að pústið hefði kveikt í honum aftur. Töluverður hiti myndaðist við brunan og brunaskemmdir urðu nokkrar.

Við fórum með dælur með okkur út á Hafdísi, til halds og trausts og hjálpuðum til við að slökkva í glæðum sem enn voru í bátnum þegar við komum að honum, en þá var hann kominn í tog hjá öðrum bát á leið til lands, en báturinn var dreginn til Stöðvarfjarðar vegna þess að þangað var styttra að fara", sagði Grétar Helgi.

Það var upp úr áramótunum sem félagar í Björgunarsveitinni Geisla á Fáskrúðsfirði fóru að huga að kaupum á björgunarbáti.  Það var síðan fyrir mánuði síðan sem báturinn kom til landsins, þá voru komnar í hann nýjar vélar og síðasta mánuðinn hefur verið unnið að því að tækja bátinn upp, setja í hann siglingatæki og talstöðvar ásamt helstu stjórntækjum.

Báturinn var síðan vígður og tekinn í notkun á sjómannadaginn um síðustu helgi og hlaut nafnið Hafdís.