Blængur með mestan ársafla austfirskra togara

Frystitogarinn Blængur NK veiddi 7.570 tonn á síðastliðnu ári sem mun vera mesti afli sem austfirskur togari hefur borið að landi á einu ári. Skipstjórinn segir stöðugleika í rekstri skipsins og áhöfn hafa skilað þessum árangri.

„Það eru tvær áhafnir á skipinu sem skiptast á og þetta er stöðugur og góður mannskapur. Það hefur heldur ekkert bilað þannig skipið er alltaf gangandi,“ segir Bjarni Ólafur Hjálmarsson sem er skipstjóri á móti Sigurði Herði Kristjánssyni.

Í frétt á vef Síldarvinnslunnar segir að aflinn sé „líklega mesti afli sem austfirskur togari hefur borið að landi á einu ári og án efa verðmætasti ársafli togara sem gerður hefur verið út frá Austfjörðum.“ Framleiðsluverðmæti hans nam rétt tæpum þremur milljörðum króna.

Blængur veiddi í fyrra 1.700 tonn af karfa, 1.500 tonn af ufsa, 1.300 tonn af þorski, tæplega 1.100 tonn af ýsu og tæp 1.000 tonn af gulllaxi og tæp 900 tonn af grálúðu. Tvisvar áður hefur skipið veitt yfir 7.000 tonn á einu ári en þá var karfi hærra hlutfall heildaraflans.

Blængur veiðir mest í kringum Ísland er fer stundum lengri ferðir, svo sem í Barentshafið. Engin slík ferð var farin í fyrra heldur fékkst aflinn allur á Íslandsmiðum.

Blængur var smíðaður á Spáni árið 1973 og er því ásamt Ljósafelli á Fáskrúðsfirði einn elsti togari Íslendinga í dag. Skipið var keypt til Síldarvinnslunnar árið 2015. „Það er í fínu standi,“ segir Bjarni Ólafur.

Blængur er gjarnan fjórar vikur að veiðum í einu. Núverandi túr er þó lengri en það, skipið fór af stað 3. janúar og kemur í land á mánudag eftir um 40 daga ferð. Að sögn Bjarna Ólafs hefur gengið vel. Undanfarna daga hefur skipið verið að veiðum í Breiðamerkurdýpi og veitt ágætlega. Næsta ferð er síðan áætluð í Barentshaf.

Mynd: Síldarvinnslan/Grétar Örn Sigfinnsson


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.