Blak: Karlalið Þróttar í úrslitakeppni bikarkeppninnar
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 05. feb 2024 14:56 • Uppfært 05. feb 2024 14:57
Karlalið Þróttar er komið í undanúrslit bikarkeppninnar í blaki eftir 1-3 sigur á Aftureldingu á föstudagskvöld. Liðð mun mæta Stál Úlfi í undanúrslitum.
Afturelding vann fyrstu hrinuna í viðureign liðanna í Mosfellsbæ. Lokatölur þar urðu 25-23. Aldrei munaði miklu á liðunum og á tímabili var Þróttur yfir.
Afturelding fór betur af stað í annarri hrinu, komst í 8-3 en þá skoraði Þróttur sex stig í röð. Þróttur var áfram yfir í 11-13 en þá snérist leikurinn aftur heimaliðinu í vil og það komst í 16-14. Jafnt var í 19-19, þá skoraði Þróttur fjögur stig í röð og vann að lokum 22-25.
Afturelding byrjaði þriðju hrinu heldur betur en náði aldrei afgerandi forskoti. Þróttur náði því hins vegar þegar leið á, komst í 14-18 og vann 21-25.
Eins og áður í leiknum byrjaði Afturelding betur í fjórðu hrinu, komst í 5-1 en Þróttur jafnaði 5-5. Vendipunkturinn kom í stöðunni 11-12 þegar Þróttur skoraði fimm stig gegn einu, komst í 12-17 og vann hrinuna 19-25.
Út frá tölfræði leiksins má ekki sjá mikinn mun á liðunum. Helst hafa Þróttarar verið vakandi í vörninni gagnvart uppgjöfum Aftureldingar, heimaliðið skorar tvö stig beint úr þeim í leiknum en Þróttur átta, þar af fimm í síðustu hrinunni. Af einstökum leikmönnum Þróttar var Raul Garcia Ascensio atkvæðamestur.
Í dag var dregið í undanúrslitum. Þróttur mætir þar Stál Úlfi. Fyrirfram eru möguleikarnir Þrótti í hag því Stál Úlfur hefur ekki átt góðu gengi að fagna í Íslandsmótinu. Spilað er 16. febrúar í Digranesi og er úrslitaleikurinn strax daginn eftir. Þróttur hefur aldrei orðið bikarmeistari í karlaflokki. Kvennalið félagsins, sem féll úr leik í fjórðungsúrslitum, á sex titla.
Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða