Blak: Karlaliðið tapaði fyrir KA í oddahrinu
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 09. okt 2023 10:59 • Uppfært 09. okt 2023 11:01
Lið Þróttar í úrvalsdeild karla í blaki tapaði í gær fyrir KA í oddahrinu. Kvennaliðið tapaði 3-0 en átti ágætan leik í síðustu hrinunni.
Alls skiptust KA og Þróttur átta sinnum á forustu í karlaleiknum, þar af fjórum sinnum í blálokin. Þróttur var yfir 17-20 en KA komst í 24-21 og þar með kjörstöðu til að klára hrinuna.
Þróttur jafnaði þá með þremur stigum í röð. KA komst yfir 25-24 og aftur í færi til að vinna hrinuna en aftur skoraði Þróttur þrjú stig í röð og vann.
Áfram voru sveiflur í annarri hrinu. KA var yfir 11-6 en Þróttur 15-17. Jafnt var í 19-19 og aftur komst KA í 24-21. Aftur skoraði Þróttur þá þrjú stig í röð og jafnaði í 24-24. Að þessu sinni tókst liðinu ekki að fylgja því eftir, KA skoraði síðustu tvö stigin og vann 26-25.
Eftir tvær jafnar hrinur tóku við tvær ójafnar. Þá fyrri vann Þróttur 19-25 eftir að hafa komist yfir 3-8 og aldrei látið þá forustu af hendi. KA svaraði í fjórðu hrinu, komst í 12-5 og vann hana 25-19. KA hafði síðan nokkuð örugg tök á oddahrinunni og vann hana 15-12.
KA vann kvennaleikinn örugglega, 0-3. Liðið hafði yfirburði í fyrstu tveimur hrinunum, vann þá fyrstu 25-11 og þá aðra 25-20. KA var þar komið í 22-13 en Þróttur náði að minnka muninn undir restina.
Þróttur var yfir 9-12 um miðja þriðju hrinu en KA snéri henni þá sér í vil með sex stigum í röð, komst í 15-12 og vann 25-20. Lucia Carrasco og Amelía Rún Jónsdóttir voru atkvæðamestar í liði Þróttar.
Mynd: Sigga Þrúða