Skip to main content

Blak: Mikilvægur útisigur á Álftanesi eftir oddahrinu

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. feb 2024 10:37Uppfært 22. feb 2024 10:40

Kvennalið Þróttar í blaki vann í gær mikilvægan sigur á Álftanesi í úrvalsdeild kvenna í blaki. Þróttur sýndi mikinn karakter með að snúa leiknum sér í vil eftir að hafa tapað fyrstu tveimur hrinunum.


Þróttarliðið virðist hafa mætt skítkalt til leiks á Álftanesi í gærkvöldi því það var algjörlega yfirspilað í fyrstu hrinunni sem tapaðist 25-12.

Í annarri hrinu var Þróttur á undan upp í 6-7 en fimm stig í röð komu Álftanesi í lykilstöðu. Þróttur klóraði í bakkann í restina eftir að staðan var 24-16 endaði hrinan 25-20. Staðan þarna var þó orðin erfið fyrir Þrótt, Álftanes vantaði eina hrinu til að vinna leikinn.

En sú hrina kom aldrei. Eftir að Álftanes minnkaði muninn í 5-6 í þriðju hrinu skoraði Þróttur tólf stig í röð, komst í 5-18 og kláraði hrinuna örugglega 9-25.

Í fjórðu hrinu tók Þróttur frumkvæðið af alvöru með að skora tvö stig í röð eftir að jafnt var 10-10. Álftanes jafnaði reyndar í 18-18 en Þróttur gerði þá út um hrinuna með sjö stigum í röð. Eftir það var þrekið búið hjá Álftanesi, Þróttur hafði alltaf tök á oddahrinunni og vann hana 10-15.

Liðin spila í svokölluðum neðri kross deildarinnar þar sem fjögur neðstu liðin í deildinni spila um endanlega röð fyrir úrslitakeppnina. Til nokkurs er að vinna því efsta liðið sleppur við heimleikjarétt. Þróttur er sem stendur í öðru sæti neðri hlutans fyrir ofan Álftanes og Þrótt Reykjavík en Völsungur er þar efstur.

Þétt er spilað í blakinu þessa dagana. Kvennaliðið tekur á móti Álftanesi á laugardag. Fyrr þann dag spilar karlaliðið við Aftureldingu í efri krossi úrvalsdeildar karla.

Mynd: Blakdeild Þróttar/Sigga Þrúða